Sérstakur saksóknari segir í ákæru á hendur níu fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings, þar á meðal helstu stjórnendum, að brot þeirra hafi verið afar umfangsmikil, þaulskipulögð, stóðu yfir í langan tíma og vörðuðu gríðarlega háar upphæðir. Um er að ræða markaðsmisnotkun sem stóð yfir frá 1. nóvember 2007 til og með 8. október 2008.
Markaðsmisnotkunin stóð yfir í 229 viðskiptadaga á íslenska markaðnum og 234 viðskiptadaga á þeim sænska, með því að setja fram tilboð og eiga viðskipti í Kauphöllinni og kauphöllinni í Svíþjóð. Með henni var haldið uppi óeðlilegu verði til þess að gefa eftirspurn og verð bréfanna ranglega og misvísandi til kynna.
Þar sem bankinn keypti mikið magn eigin hlutabréfa söfnuðust þau upp og þurfti að losa bankann við þau til að hægt væri að halda áfram sömu iðju. Það var gert með sölu á hlutabréfum í stórum utanþingsviðskiptum sem voru einnig fjármögnuð af Kaupþingi. Nokkur slík viðskipti eru tilgreind í ákærunni.
Í fyrsta lagi var komið á viðskiptum með hluti í Kaupþing sem létu ranglega líta svo út að félag skráð á Bresku Jómfrúareyjum, Holt Investment Group, hefði í febrúar og september 2008 lagt fé til kaupa á 25.700.000 hlutum í bankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu. Raunin var hins vegar sú að Kaupþing fjármagnaði að fullu kaupin og bar bankinn sjálfur alla áhættu þar sem engar eða mjög litlar tryggingar voru fyrir hendi.
Áður en til viðskiptanna kom, sem námu rúmum sex milljörðum króna, átti Holt Investment Group aðeins eitt eignarhaldsfélag sem hafði lítil umsvif og neikvætt fé í lok árs 2007.
Fjármunirnir eru að mestu taldir glataðir.
Þá var látið líta svo út að Fjárfestingafélagið Mata hefði 25. mars 2008 lagt fé til kaupa á 5.000.000 hlutum í bankanum. Eins og áður fjármagnaði bankinn kaupin og bar af þeim alla áhættu. Í ákærunni segir að kaupin hafi byggst á blekkingum og sýndarmennsku. Mata var með neikvætt eigið fé að fjárhæð 37,5 milljónir króna í lok árs 2007.
Viðskiptin við Mata voru gerð upp 27. mars 2008, eða tveimur dögum síðar, en þá fékk félagið peningamarkaðslán frá Kaupþingi til að greiða bankanum til baka. Lánið er í vanskilum og er talið að fullu glatað, tæpir fjórir milljarðar króna.
Jafnframt var ranglega látið líta svo út að kýpverska félagið Desulo Trading Limited hafi í maí, júní, júlí, ágúst og september 2008 lagt fé til kaupa á samtals 17.849.500 hlutum í bankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu þegar kaupin voru fjármögnuð af Kaupþingi.
Var eiganda félagsins boðið að kaupa hluti í bankanum með fullri fjármögnun hans, en félagið Desulo Trading Limited var eignalaust félag. Um var að ræða um eða yfir tíu milljarða króna sem taldir eru glataðir.
Í ákærunni segir að um samfellda markaðsmisnotkun hafi verið að ræða á öllu tímabilinu og að háttsemin hafi miðað að því að halda verði hlutabréfa í bankanum stöðugu eða draga úr verðlækkun með því að halda inni stórum kauptilboðum og kaupa hlutabréf í bankanum sem voru umfram eftirspurn. Tilgangurinn var jafnframt að tryggja seljanleika hlutabréfa í Kaupþingi með mikilli og stöðugri eftirspurn eftir bréfunum.
Ennfremur er ákært fyrir umboðssvik en Kaupþing lánaði Kevin Stanford í ágúst 2008 12,4 milljarða króna í formi peningamarkaðsláns til að fjármagna að fullu kaup hans á hlutum í Kaupþingi. Lánanefnd bankans hafði ekki samþykkt lánveitinguna og endurgreiðsla lánsins var ekki tryggð, þrátt fyrir að fjárhagsstaða Stanfords væri slæm. Lánið er talið að fullu glatað.
Málið er komið á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur og verður þingfest 24. apríl næstkomandi.