Tannheilsa íslenskra barna er verri en hjá börnum í Mósambík

Tannlæknar að störfum.
Tannlæknar að störfum. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Enn bólar ekkert á samningi á milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga Íslands um endurgreiðslu tannlæknakostnaðar barna. Aðilar hafa fundað stíft undanfarnar vikur og formaður Tannlæknafélagsins segir tannheilsu íslenskra barna verri en tannheilsu barna í Mósambík.

„Það hefur ekki verið neinn samningur sem heitið getur undanfarin 13 ár og við höfum verið að funda til þess að finna út eðlilegt verð á þjónustunni. Afraksturinn liggur nú á borði velferðarráðherra,“ segir Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands. 

„Ég geri mér grein fyrir að mörg stór mál liggja á borði velferðarráðherra. Þetta mál er hagsmunamál barnafjölskyldna og yrði þessi samningur að veruleika, myndi það breyta tannheilsumálum íslenskra barna verulega til batnaðar. Næsti samningafundur er boðaður 9. apríl og þá vona ég að velferðarráðherra hafi gefið sér tíma til að skoða málið,“ segir Kristín.

 „Eftir viðvarandi samningsleysi og með hnignandi tannheilsu íslenskra skólabarna, en mér skilst að tannheilsa íslenskra barna sé verri en tannheilsa barna í Mósambík, er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskar barnafjölskyldur að þessum málaflokki sé komið í viðunandi horf,“ segir Kristín.

Vilja svipaðan samning og á hinum Norðurlöndunum

„Samningsdrögin sem liggja fyrir gera ráð fyrir samningi til sex ára og gert er ráð fyrir að í lok samningstímans muni allir árgangar barna til 18 ára aldurs njóta fullrar endurgreiðslu tannlækninga að frádregnu komugjaldi, líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Þar sem um aukna endurgreiðslu og minni útgjöld barnafjölskyldna er að ræða, er um útgjaldaauka fyrir ríkissjóð að ræða. Í því samhengi má benda á að áætlaður kostnaður við þennan samning yrði einungis um helmingur þess sem það kostaði að reka skólatannlækningar undir opinberum hatti,“ segir Kristín.

Tillaga velferðarráðherra samþykkt í nóvember

Velferðarráðherra lagði til í nóvember síðastliðnum að tannlækningar barna yrðu niðurgreiddar að fullu og samþykkti ríkisstjórnin tillöguna. Í kjölfarið hófust samningaviðræður Sjúkratrygginga við tannlækna. Stefnt er að því að ná þessu markmiði, að tannlækningarnar verði niðurgreiddar að fullu, í áföngum og að innleiðingu á þessu nýja kerfi verði lokið í ársbyrjun 2018.

Samkvæmt  tillögum ráðherra átti full endurgreiðsla barna á aldrinum 12-17 ára að hefjast um síðustu áramót. Bæta á nýjum árgöngum við árlega, fram til ársins 2018 þegar innleiðingu kerfisins á að ljúka. Þegar ljóst var, að samningar myndu ekki nást fyrir áramótin, var samningur um svokallaða hækkaða endurgreiðslu, þ.e.a.s. 62% af tannlæknakostnaði barna, framlengdur til 1. apríl.

Ekki liggur fyrir hvort samningurinn verður framlengdur aftur.

Kristín Heimisdóttir formaður Tannlæknafélags Íslands.
Kristín Heimisdóttir formaður Tannlæknafélags Íslands. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert