Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Hreyfingarinnar, var ekki heimilt að greina frá því sem átti sér stað á fundi formanna flokkanna fyrr í kvöld, en hún skýrði frá efni hans á Facebook-síðu sinni. Forseti Alþingis segir efni slíkra funda vera trúnaðarmál.
Í Facebook-færslunni sagði Birgitta að samkomulag hefði náðst á milli flokkanna um stjórnarskrármálið, að 40% kosningabærra manna þyrfti til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar. Hún sagði að búast mætti við því að samkomulag um þinglok fylgdi fljótlega í kjölfarið.
„Það er mjög óvenjulegt að þingmenn greini frá því sem á sér stað á svona fundum. Þetta eru trúnaðarfundir og ég veit ekki til þess að svona lagað hafi gerst áður,“ segir Ásta Ragnheiður Jónsdóttir, forseti Alþingis.
Var Birgittu ekki heimilt að greina frá því sem gerðist á fundinum? „Nei, þessir fundir eru trúnaðarfundir.“ Eru einhver viðurlög við þessu? „Ég get ekki svarað því, ég hef ekki séð þessa Facebookfærslu,“ segir Ásta.
Færsla Birgittu er svohljóðandi: „Loksins fékk ég boð á formannafund og þar fékk ég eftirfarandi staðfest sem samninga á milli formanna fjórflokksins: Þau eru búin að semja um 40% þröskuld á breytingar á stjórnarskrá, ef mál er umdeilt þurfa um 90% allra á kjörskrá að mæta á kjörfund til að fá ákvæði samþykkt. Ekkert auðlindarákvæði, Bakki verður keyrður í gegn og náttúruverndarlögin verða ekki lögfest fyrr en eftir í fyrsta lagi eftir ár.“