Þyrlumál Landhelgisgæslunnar voru til umræðu á sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og atvinnuvegnefndar Alþingis í gærmorgun. Fyrir nefndirnar komu m.a. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.
Lagt var fram minnisblað innanríkisráðherra, merkt trúnaðarmál, um nýtt útboð til að kaupa fullbúnar björgunarþyrlur, eins og það er orðað í fundargerð fjárlaganefndar. Fyrirhugaður er annar nefndafundur í dag, sem Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra hefur verið boðuð á.
Í samtali í Morgunblaðinu í dag segir Ögmundur að engar ákvarðanir liggi fyrir um kaup á þyrlum eða að fara í nýtt útboð. Hann hafi aðeins verið að gera þingnefndunum grein fyrir stöðu mála og sinni afstöðu.