„Ég stefni að því að þinginu verði slitið á morgun,“ sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, á tólfta tímanum í gærkvöldi.
Halda átti þingfundi áfram fram á nótt og ljúka þinginu í kvöld, eftir að ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan virtust hafa náð saman um þinglok. Þingfundur stóð til klukkan 3:40 í nótt.
Þegar Morgunblaðið fór í prentun sögðu þingmenn að allt stefndi í samkomulag þar sem kveðið er á um að frumvörp um uppbyggingu á Bakka verði afgreidd og að greidd verði atkvæði um eina af þrem tillögum í stjórnarskrármálinu. Er þar um að ræða tillögu sem gerir kleift að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili án þess að rjúfa þing.
Þá áttu náttúruverndarlög ekki að taka gildi fyrr en næsta ár. Jafnframt áttu lög um Landspítalann ekki að taka gildi fyrr en í haust en þau varða útfærslu á framkvæmd við byggingu nýs spítala. Þá átti að setja frumvörp um stjórn fiskveiða, vatnalög og fleiri til hliðar.