Samherji veitir 90 milljónum til samfélagsverkefna

Fulltrúar félaga og samtaka sem hlutu styrk úr Samherjasjóðnum í …
Fulltrúar félaga og samtaka sem hlutu styrk úr Samherjasjóðnum í kvöld, ásamt forráðamönnum fyrirtækisins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Útgerðarfyrirtækið Samherji á Akureyri tilkynnti í dag að samfélagssjóður þess hefði ákveðið að veita 90 milljónir króna til ýmissa samfélagsverkefna. Eins og síðustu ár er töluverður hluti þess til íþrótta- og æskulýðsstarfs, en nú var kynnt sú nýbreytni að Samherji verður einn helsti styrktaraðili Íþróttasambands fatlaðra vegna Special Olympics auk þess sem félagið leggur fram fé til kaupa á tölvum, tengingum og öðrum tilheyrandi búnaði fyrir íbúa Öldrunarheimila Akureyrar.

Þetta er í fimmta sinn sem fé er veitt úr sjóðnum til íþrótta- og tómstundastarfs, og annarra samfélagsverkefna, á Eyjafjarðarsvæðinu. Styrkir til íþróttafélaga eru að miklu leyti í þeim yfirlýsta tilgangi að sem flest börn og unglingar geti stundað þær íþróttagreinar sem hugur þeirra stendur til, óháð efnahag heimilanna.

Fimm milljónir til að kaupa tölvur og búnað

Samherji leggur fram 5 milljónir króna í verkefni sem Helga Steinunn Guðmundsdóttir, formaður Samherjafjóðsins, kallaði Velferð og tækni á öldrunarheimilum Akureyrar. „Meðal
mikilvægustu verkefna í þjónustu við eldra fólk er að viðhalda eða efla lífsgæði svo sem öryggi, líðan, virkni og samskipti þeirra til þátttöku í því fjölbreytilega starfi sem í boði er,“ sagði Helga Steinunn. „Einn þáttur nútímasamfélagsins sem hefur tekið og mun væntanlega taka miklum breytingum á næstu árum, er notkun margháttaðrar tækni til miðlunar upplýsinga sem og til samskipta,“ sagði hún og kvað verkefnið felast í að efla virkni eldra fólks og auðvelda því samskiptin með hjálp nútímatækni. Sjónum verður beint að báðum öldrunarheimilunum á Akureyri, Hlíð við Austurhlíð og Lögmannshlíð við
Vestursíðu.

Fimmtán milljónir til Special Olympics

Með samningnum sem gerður er við Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) verður Samherji einn af aðalstyrktaraðilum Special Olympics á Íslandi fram yfir alþjóðaleika samtakanna í Los Angeles árið 2015. Styrkupphæðin nemur fimm milljónum króna á ári eða samtals fimmtán milljónum króna.

Styrknum verður varið til uppbyggingar á starfsemi Special Olympics hér á landi og þátttöku í verkefnum erlendis. „Samningurinn er mjög þýðingarmikill fyrir uppbyggingu og þróun á starfi samtakanna hér á landi en án utanaðkomandi stuðnings væri ekki mögulegt að taka þátt í svo kostnaðarsömum verkefnum,“ segir í tilkynningu frá ÍF.

Þar segir að Special Olympics samtökin hafi skapað ný tækifæri fyrir íþróttafólk með þroskahömlun „en markmið þeirra er að allir hafi sömu möguleika til þátttöku á leikum samtakanna. Þannig hafa Íslendingar öðlast tækifæri til að taka þátt í keppni á Alþjóðaleikum Special Olympics í greinum sem áður hafa ekki verið í boði fyrir þroskahamlaða, til að mynda í fimleikum, handbolta, golfi og nú í listhlaupi á skautum.
Stjórn Íþróttasambands fatlaðra og Special Olympics á Íslandi fagna þessum samstarfssamningi og munu áfram leggja metnað í að byggja upp gott og árangursríkt samstarf við fyrirtæki sem styrkja íþróttastarf fatlaðra á Íslandi.“

Fulltrúar Íþróttasambands fatlaðra ásamt Helgu Steinunni Guðmundsdóttur og Kolbrúnu Ingólfsdóttur …
Fulltrúar Íþróttasambands fatlaðra ásamt Helgu Steinunni Guðmundsdóttur og Kolbrúnu Ingólfsdóttur sem skrifuðu undir samninginn fyrir hönd Samherja. Frá vinstri: Anna Karolína Vilhjálmsdóttir, Helga Steinunn, Ólafur Magnússon, Kolbrún, Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og sitjandi er Jón Heiðar Jónsson. mbl.is/Skapti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert