„Síld sem kemur í færeyska landhelgi er færeysk síld. Hún er ekki norsk eða íslensk síld. Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til að gefinn yrði út 619.000 tonna síldarkvóti í ár. Við höfum ákveðið að kvóti Færeyinga sé 17% af því, alls um 105.000 tonn. Það er um þreföldun á afla okkar en hlutdeild okkar var ríflega 5%.“
Þetta segir Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, í símaviðtali frá Þórshöfn um þá ákvörðun færeyskra stjórnvalda að stórauka síldarkvótann í ár.
„Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er sá veruleiki sem við blasir í náttúrunni. Síldin er í færeyskri landhelgi nánast allt árið. Í fyrra kom síldin inn í lögsöguna í apríl og maí. Veiðitímabilinu lauk 1. desember í fyrra. Það var mikið af síld í færeyskri lögsögu nærri allt tímabilið,“ segir ráðherrann um veiðina í fyrra í samtalinu í Morgunblaðinu í dag.
Í umfjöllun um mál þetta í blaðinu í dag segir, að fram komi á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að Steingrímur J. Sigfússon hafi ritað Vestergaard bréf þar sem hann lýsi yfir áhyggjum sínum vegna þessarar ákvörðunar Færeyinga.