Nálgast nírætt á nýrri flugvél

Dagfinnur Stefánsson flugstjóri
Dagfinnur Stefánsson flugstjóri Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Flugið er ef til vill skýringin á því hvers vegna ég held góðri heilsu. Mér finnst þetta alltaf jafn skemmtilegt og áhuginn er ekkert minni en þegar ég hóf flugnám árið 1945. Og nú er kominn vorhugur í menn. Ég ætla því að komast í flug um páskana – og nú þegar Hekla minnir á sig er freistandi að fara austur á bóginn,“ segir Dagfinnur Stefánsson flugstjóri.

Tók flugpróf 1946

Dagfinnur er stórt nafn í íslenskri flugsögu. Hann er fæddur árið 1925, lauk flugnámi í Bandaríkjunum 1946, kom þá heim og réð sig til starfa hjá Loftleiðum. Starfaði hjá því félagi og síðar Flugleiðum allt til starfsloka árið 1988. Eftir það sinnti hann flugi á vegum hjálparsamtaka víða um veröld.

„Ég er í fínu formi, kemst alltaf í gegnum læknisskoðun og fæ skírteinið frá Flugmálastjórn endurnýjað,“ segir Dagfinnur sem er 87 ára að aldri. Aldurinn bítur lítið á hann, okkar maður er kvikur í hreyfingum, er í rifnum gallabuxum, leðurjakka og með derhúfu. Hann er meðal liðsmanna flugklúbbsins Þyts á Reykjavíkurflugvelli. Innan vébanda hans eru m.a. flugmenn sem eru hættir störfum en hafa flugáhugann enn ólgandi í blóðinu og fljúga á einkavélunum sem klúbburinn á og leigir til sinna félaga sem skipta tugum.

„Þetta er draumavél fyrir gamla karla eins og mig,“ segir Dagfinnur um flugvélina nýju sem hann keypti og fékk fyrr í þessum mánuði. Vélin sem ber skráningarstafina TF-XXL er af gerðinni Piper X-Large Cub; er með 190 hestafla mótor og hentar vel til lendinga á túnum, vegum og við sambærilegar aðstæður. Þorsteinn Kristleifsson, flugstjóri hjá Icelandair, smíðaði vélina og var henni fyrst flogið fyrir tveimur árum.

„Þessi vél er í grunninn eins og Piper Cup-vélarnar sem ég lærði á; léttur dúkur er strengdur á grind, pinnastýri og stélhjól. Stjórntækin eru að vísu allt önnur en var og fullkomnari og ég þekki varla inn á þau. Flugið er þó eins í grunninn sem og vélin nýja, sem er eins og hugur manns. Hún hefur níu tíma flugþol sem er kostur. Með félaga mínum á ég hús við Miklavatn í Fljótum og þar skammt frá er tún sem hægt er að lenda á,“ segir Dagfinnur sem í loggbókina er með skráða 31 þúsund flugtíma. Er óhætt að fullyrða að fáir eigi slíka reynslu að baki – hvað þá að fljúga komnir fast að níræðu og vera ekki á leið til lendingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert