Traust á Alþingi en ekki þingmönnum

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn

„Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að traust þjóðarinnar á þeirri stofnun, sem Alþingi er, hafi ekki bilað. [...] Vandinn er sá a að þegar talað er um stöðu Alþingis og ímynd þess í þjóðfélaginu gera menn engan greinarmun á stofnuninni Alþingi og þeim sem þingið skipa hverju sinni.“ Þetta sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, við lok þingfundar liðna nótt.

Ásta sagði að Alþingi hafi oftlega sætt harðri gagnrýni á kjörtímabilinu og mælingar á viðhorfum almennings til þingsins hafi ekki verið uppörvandi fyrir alþingismenn. "Að mínu mati snýst neikvæð umræða um Alþingi ekki um stofnunina eða þau lýðræðisgildi sem hún stendur fyrir. Hún beinist fyrst og fremst að þeim sem hingað eru valdir, ákvörðunum þeirra og vinnulagi."

Í lok ræðu sinnar hét Ásta svo á alþingismenn og öll þau stjórnmálasamtök sem leita eftir stuðningi kjósenda að ganga til leiks með orðsins brand að vopni og heyja góða og heiðarlega kosningabaráttu sem megi öllum verða til sóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert