„Heklugos eru misstór en eins og þau hafa verið síðustu áratugi þá stafar fólki ekki mikil hætta af Heklugosi nema það sé uppi á fjallinu. Hinsvegar er það þannig að ef öskufall verður í byggð eða á grónu landi þá gæti því fylgt flúormengun,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Jarðvísindastofnun Háskólans, spurður um hættu samfara Heklugosi.
Engin skjálftavirkni hefur verið norðaustan í Heklu síðan um síðastliðna helgi. Áfram er þó í gildi gulur litakóði vegna flugumferðar og óvissustig almmanavarna er ennþá í gildi. Engin sjáanleg merki eru um að eldgos sé í aðsigi, að því segir á vefsvæði Veðurstofu Íslands.
„Ef við gerum ráð fyrir að gjóskufall yrði nákvæmlega á þessum árstíma í lok mars, þá væru vandamál vegna mögulegrar flúoreitrunar í búfé minni en að vori eða sumri. Við þær aðstæður þyrfti að taka skepnur inn enda er Heklugjóska mjög eitruð, t.d. drápust 8.000 fjár í Húnavatnssýslu vegna eitrunar í gosinu 1970. Þó var öskufall ekki sérstaklega mikið þá,“ segir Magnús Tumi. Hann bætir við að líkur séu á því að gjóska yrði mjög lítil samanborið við Eyjafjallajökulsgosið. Í síðasta Heklugosi hafi magn gjósku aðeins verið um 4% af því sem upp kom í Eyjafjallajökli. Miðað við síðustu Heklugos væri líklegt að gjóska myndi aðeins falla fyrstu klukkustundir goss. Síðan færi það eftir vindátt og árstíma hver áhrifin yrðu á búfénað.
Óvissustigi almannavarna var lýst yfir vegna jarðhræringa í Heklu á þriðjudag en þá hafði Veðurstofan upplýst almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um óvenjulegar jarðhræringar í Heklu. Með óvissustigi er eftirlit með atburðarás aukið og er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf. Undanfarnar tvær vikur hafa átta skjálftar mælst við Heklu. Engar kvikuhreyfingar hafa þó mælst. Magnús Tumi segir jarðskjálftana afskaplega litla. Hinsvegar sé skjálftavirkni við Heklu vanalega mjög lítil og því hafi þessi hrina smáskjálfta orðið til þess að ákveðið hafi verið að lýsa yfir óvissustigi.
„Óvissustig er aðeins yfirlýsing um að nú fylgjast eftirlitsstofnanir eins og Veðurstofan mjög náið með Heklu því þar er aðeins meiri skjálftavirkni, auk þess sem Almannavarnir og lögregla vita af stöðunni og vara fólk við að vera á ferðinni á fjallinu. Það felst ekkert meira í óvissustiginu, mikilvægt er að fólk viti það. Þetta er allt annað stig en það að menn sjái merki um að þarna sé gos að hefjast á næstu klukkustundum,“ segir Magnús. Í tilkynningu frá Almannavörnum í gær var því lýst yfir að óvissustig vegna Heklu væri enn í gildi og að óbreyttu yrði staðan endurmetin í næstu viku.
Mörgum eru í fersku minni áhrif öskunnar úr Eyjafjallajökli og Grímsvötnum á flugumferð í Evrópu. „Í byrjun eru Heklugos yfirleitt sprengigos en það stendur yfirleitt mjög stutt. Í þeim gosum sem komið hafa frá 1970 hefur sprengigosið verið afstaðið eftir um tvær klukkustundir, þá tekur við hraungos. Flugumferð yrði lokað á því svæði sem gjóska færi um, vindáttirnar hafa áhrif á það hve áhrifin á flugumferð yrðu mikil. Truflunin á flugumferð myndi vara til þess að gera stutt,“ segir Magnús Tumi. Hann bætir við að gjóskan yrði mun minni en t.d. úr Eyjafjallajökli, áhrif þess goss hafi ekki síst falist í hversu lengi gosið þar stóð. Að lokum nefnir Magnús Tumi að reglum um gjóskumagn og flugumferð hafi verið breytt. Sambærilegt gos og varð í Eyjafjallajökli árið 2011 myndi ekki leiða af sér jafnvíðtækar takmarkanir á flugumferð í dag.