Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, prýðir lista bandaríska tímaritsins Vanity Fair yfir tíu best klæddu þjóðarleiðtoga heims og kemst þar með í hóp Baracks Obama forseta Bandaríkjanna, Soniu Gandhi, forseta indverska þjóðarflokksins og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. Listann leiðir David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
Á vefsíðu Vanity Fair segir að „fágaður stíll“ Ólafs Ragnars sé augljóslega undir breskum áhrifum.
Tvíhneppt jakkaföt hans með breiðum jakkaboðungum minni á háskólasamfélagið í Oxford og Cambridge á þriðja áratug síðustu aldar en gleraugu hans, sem séu í flugmannsstíl, séu meira í átt við stúdentamótmæli í Columbia háskólanum bandaríska á fimmta áratugnum.
Sérstaklega er tekið fram að Ólafur skarti eigin hári, sem sé gjarnan „frjálslegt en þó greinilega vel greitt.“