Páskahelgin fer vel af stað á skíðasvæðum um land allt. Víðast hvar um landið er veður gott til skíðaiðkunar og færi ákjósanlegt.
„Gott varð betra,“ segir Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, en mjög gott var á Akureyri í gær. „Veðrið er dásamlegt og margir á skíðum.“
„Hér gengur allt glimrandi, það er allt troðið af fólki,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Bláfjöllum. „Þetta er alveg meiriháttar. Það blæs aðeins á toppnum en að öðru leyti er þetta fínt. Við værum alveg til í meiri snjó, en ásýndin er miklu betri en hún var eftir smá snjókomur í nótt og í fyrradag. Bílaumferð gengur ágætlega og lítil bið í lyfturnar. Báðar stólalyfturnar eru opnar og engin röð í gömlu lyftuna en svona sjö til átta mínútna bið í Kónginn. Það er látlaus straumur af fólki og í lok dags munu örugglega 4-5.000 manns hafa farið hér um,“ segir Einar.
„Það dró aðeins fyrir sólina í dag en færið er mjög skemmtilegt, púðursnjór ofan á troðnum snjó og allt fullt af fólki,“ Gautur Ívar Halldórsson, forstöðumaður skíðasvæðisins á Ísafirði. „Páskafríið hefur verið frábært hérna, hlýtt og gott veður þó svo það hafi aðeins dregið fyrir sólu. Hér eru mestmegnis brottfluttir Ísfirðingar og aðkomufólk og margir að stíga sín fyrstu skref á skíðum. Svo er gott að hafa Aldrei fór ég suður þessa helgi, þetta er gott í bland. Skíða á daginn og rokka á kvöldin,“ segir Gautur. „Við vorum að spá í að fá einhverja tónlistarmenn til að koma og spila hérna í brekkunum. Við græjum það kannski á næsta ári.“
„Þetta er algjört met hérna hjá okkur. Það hafa komið vel yfir 1.000 manns í dag og ríflega 1.100 í gær, þannig að þetta er alveg frábært,“ segir Egill Rögnvaldsson, umsjónarmaður skíðasvæðisins á Siglufirði. „Það eru suðvestan fjórir til sjö metrar á sekúndu, skýjað og einnar gráðu frost og meiriháttar færi. Það stefnir samt í sól bæði á morgun og á páskadag.“