Þarf að taka afstöðu til svo margs

Erla Bolladóttir á blaðamannafundi innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og …
Erla Bolladóttir á blaðamannafundi innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið þann 25. mars. Rósa Braga

Erla Bolladóttir nafngreindi báða mennina, sem hún segir hafa brotið kynferðislega gegn sér á meðan hún var í haldi í Síðumúlafangelsinu,  í samtölum við starfshópinn sem vann nýútkomna skýrslu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið.  Hún kærði brotin ekki á sínum tíma, en íhugar það nú.

Í skýrslunni er haft eftir Erlu að tveir menn hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Annar þeirra hafi verið „rannsóknarmaður“ sem starfaði innan lögreglunnar að sögn Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, formanns starfshópsins, hinn var fangavörður.

Í skýrslunni segir að sá fyrrnefndi hafi haft samræði við Erlu í fangaklefa hennar í Síðumúlafangelsinu, hún hafi orðið skelfingu lostin, lamast af hræðslu og ekki þorað öðru en að hlýða manninum. Hinn káfaði á Erlu að næturlagi.

Enn hægt að leggja fram kæru

„Það er svo margt sem ég þarf að taka afstöðu til núna, eftir að skýrslan kom út og þessi ofbeldismál eru þar á meðal,“ segir Erla. „Ég á eftir að ráðfæra mig við lögfræðing minn, en ef það verður af kæru, þá myndi það sennilega verða fljótlega, hugsanlega í næstu viku.“

Brotin áttu sér stað árið 1976, þegar Erla var í haldi í Síðumúlafangelsinu. „Vissulega eru brotin fyrnd, segir Erla. „En eftir því sem ég best veit er engu að síður hægt að leggja fram kæru og þá er það ríkissaksóknara að taka afstöðu til hennar; hvort ákært verður í málinu eða það látið falla niður.“

Veistu hvort mennirnir sem um ræðir eru ennþá starfandi innan fangelsiskerfisins eða lögreglunnar? „Ég veit ekki um fangavörðinn. En hinn starfar ennþá, eftir því sem ég best veit, innan lögreglunnar,“ segir Erla.

Nú er þetta mál í þeirra höndum

Áður hefur mbl.is greint frá því að Erla nafngreindi annan manninn, en samkvæmt upplýsingum frá Arndísí Soffíu, sagði Erla starfshópnum deili á þeim báðum. Upplýsingunum var komið áleiðis til ríkissaksóknara og fangelsismálastofnunar.

„Starfshópurinn hafði ekki yfir neinum rannsóknarheimildum að ráða og þess vegna var það eina sem við gátum gert í stöðunni að koma þessum upplýsingum til þar til bærra aðila sem eru ríkissaksóknari og fangelsismálastofnun,“ segir Arndís Soffía. 

Þannig að ríkissaksóknari og fangelsismálastofnun hafa vitneskju um hverjir þessir tveir menn eru? „Já og nú er þetta mál í þeirra höndum.“

Annar mannanna var lögreglumaður

Í skýrslu starfshópsins er talað um „rannsóknarmann“. Er þar átt við rannsóknarlögreglumann? „Já, maðurinn sem Erla greindi frá gegndi störfum rannsakanda. Hann var lögreglumaður á vegum þáverandi sakadóms,“ segir Arndís

Eru þessir tveir menn ennþá að störfum innan lögreglunnar og fangelsiskerfisins? „Því vil ég ekki svara. Það er annarra að svara fyrir það,“ segir Arndís.

Í samtali við mbl.is fyrir nokkrum dögum sagði Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari að engin kæra hefði verið lögð fram í málinu og að ekki hefði verið gripið til neinna ráðstafana vegna þessara upplýsinga.

Erla Bolladóttir við réttarhöldin í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Erla Bolladóttir við réttarhöldin í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert