Úrslit Íslandsmótsins í fitness, módelfitness, sportfitness og vaxtarrækt liggja ljós fyrir en alls tóku 126 keppendur þátt í mótinu sem fram fór í Háskólabíói. Keppnin var að vonum spennandi enda keppendur búnir að undirbúa sig fyrir stóru stundina í marga mánuði.
Í frétt um Íslandsmótið á vefsíðunni Fitnessfréttir segir að eftir að keppni lauk í einstökum flokkum hafi sigurvegarar í flokkunum mæst í heildarkeppni sem fór þannig að heildarsigurvegari í fitnesskeppni kvenna varð Kristín Sveiney Baldursdóttir, í módelfitness vann Elva Katrín Bergþórsdóttir heildarkeppnina en Magnús Samúelsson sigraði í heildarkeppninni í vaxtarrækt karla.
Gauti Már Rúnarsson vann fitnessflokk karla og Mímir Nordquist varð fyrsti Íslandsmeistarinn í sportfitness.
Nánar má lesa um Íslandsmótið á vefsíðu Fittnessfrétta en þar má einnig finna fjöldann allan af glæsilegum myndum sem teknar voru af keppendum.