„Ég ætla að leggja fram kæru“

Erla Bolladóttir á blaðamannafundi innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og …
Erla Bolladóttir á blaðamannafundi innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið 25.3. 2013. Rósa Braga

Erla Bolladóttir, einn sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu ætlar að leggja fram kæru á hendur lögreglumanni sem hún segir hafa nauðgað sér á meðan hún var í varðhaldi í Síðumúlafangelsinu. Erla segir glæpinn vera táknrænan fyrir þá meðferð sem hún og aðrir sakborningar í málinu hlutu og segir það vera samfélagslega ábyrgð sína að kæra.

Erla segist hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á meðan hún var í gæsluvarðhaldi vegna málsins í Síðumúlafangelsinu 1975- '76. Um hafi verið að ræða tvo menn, annar þeirra káfaði á Erlu að næturlagi, hinn nauðgaði henni.  Í samtölum við starfshópinn sem vann nýútkomna skýrslu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið nafngreindi hún báða mennina og hyggst nú kæra þann síðarnefnda. 

Formaður starfshópsins, Arndís Soffía Sigurðardóttir, staðfesti í samtali við mbl.is í gær að viðkomandi maður væri lögreglumaður. Erla telur að hann sé ennþá að störfum innan lögreglunnar.

Nauðgunin er táknræn fyrir eðli rannsóknarinnar

„Ég ætla að leggja fram kæru,“ segir Erla og segir það hafa verið erfiða ákvörðun. 

„Allt sem tengist þessu máli er erfitt. Þetta vekur upp dimmar minningar og tilfinningar úr þessu máli. Þessi verknaður er táknrænn fyrir eðli þessarar rannsóknar í heild sinni. Í rannsókninni vorum við neydd til þess að gera hluti sem rannsóknaraðilar vildu að við gerðum. Það var hvergi staldrað við til þess að taka mið af mannúð, engum var umhugað um okkar velferð, hugsanlegt sakleysi eða friðhelgi í neinum skilningi. Ég treysti mér til að fullyrða og get rökstutt það að þessi rannsókn hafi verið í eðli sínu ákveðið afbrigði nauðgunar.“

„Enginn hefði trúað mér“

Hvers vegna kærðirðu brotið ekki fyrr? „Þegar þetta gerðist hefði ég ekki látið mér til hugar koma að segja nokkrum manni frá þessu. Í fyrsta lagi hefði enginn viljað heyra af þessu eða viljað trúa mér, hvorki almenningur né yfirvöld. Í öðru lagi eyddi ég áratugum í ótta eftir þetta mál.“

Erla segir eina ástæðuna fyrir því að hún treysti sér ekki til að kæra nauðgunina á sínum tíma vera hversu niðurbrotin hún var eftir fangelsisvistina og sakargiftirnar, en hún var dæmd í þriggja ára fangelsi.

„Ég var bara lítil stelpa sem var búið að taka og setja í gegnum einhvers konar óhugnanlega embættisvél. Um tíma hitti ég engan sem ekki trúði því að ég væri sek. Ég upplifði mig sitja við annað borð en aðrir. Ég var einfaldlega svo óttaslegin og lifði í myrkri í nokkuð langan tíma eftir að ég var látin laus úr þessu öllu. Svo kom að því að ég náði að vinna úr þessu atviki með hjálp fagfólks, með góðum árangri. Þetta háir mér ekkert í dag og hefur ekki gert í töluverðan tíma.“

Finn til ábyrgðar

Erla segir að ákveðin þáttaskil hafi orðið á mánudaginn þegar skýrslan um rannsóknina á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var kynnt. „Þá vaknar þessi spurning; hvað ætla ég að gera með þetta mál?  Því að þarna er mál sem er alveg ósnert. Ég finn til ákveðinnar samfélagslegrar ábyrgðar og virðingar gagnvart öðrum sem hafa þurft að ganga í gegnum glæp eins og þennan. Ég lít svo á að á mér hvíli sú ábyrgð að klára þetta.“

Vill ljúka málinu 

Erla segir að með skýrslunni sem út kom núna fyrr í vikunni hylli loks undir lokin á þessu áratuga langa umdeilda máli. Með því að leggja fram kæru sé hún á vissan hátt að loka málinu hvað hana sjálfa varðar „Ég vil að við förum að klára þetta mál; halda jarðarför þar sem allir vita að nú er þetta mál búið og dáið. Þá vil ég ekki að neitt rísi upp úr þeirri gröf seinna. Þess vegna hef ég ákveðið að kæra nauðgunina.“

Frétt mbl.is: Þarf að taka afstöðu til svo margs

Skýrsla starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál til innanríkisráðherra

Erla Bolladóttir við réttarhöldin í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Erla Bolladóttir við réttarhöldin í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert