„Þetta var eitt af baráttumálum mínum í ríkisstjórn og er mér því sérstakt fagnaðarefni aðstrandsiglingar séu nú orðnar að veruleika,“ segir Jón Bjarnason, alþingismaður og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á heimasíðu sinni í dag í tilefni af fréttum þess efnis að strandsiglingar séu hafnar að nýju. Það hafi ekki síst verið hagsmunamál fyrir Vestfirðinga og þéttbýlisstaðina á Norðausturlandi.
„Þegar strandsiglingar lögðust af 2004 voru útflutningshafnirnar líka lagðar niður og nánast allur inn- og útflutningur fór í gegnum hafnirnar á suðvesturhorninu. Þessir landshlutar urðu því algjörlega háðir flutningum á þjóðveginum, en vegirnir voru lélegir og báru engan veginn þungaflutninga,“ segir hann ennfremur og bætir við að auk þess hafi flutningskostnaður verið mikill. Þannig hafi samkeppnisstaða atvinnulífs og búsetu á þessum svæðum verið verulega skert.
„Mikilvægt er að þessu verði fylgt vel eftir þannig að [það] verði um þá byltingu að ræða sem ég og fleiri vonuðumst eftir að yrði fyrir þjóðina og þá landshluta sem þetta skiptir mestu máli,“ segir Jón að lokum á heimasíðu sinni.