Matarverð stórlækkar í 60 mínútur

Melabúðin
Melabúðin Jim Smart

Melabúðin mun í dag bjóða viðskiptavinum sínum að kaupa matvörur á stórlækkuðu verði en vörurnar verða seldar á því verði sem kaupmenn telja mögulegt að selja þær á eftir komandi alþingiskosningar.

Í tilkynningu sem Melabúðin og Samtök verslunar og þjónustu sendu frá sér er tilgangurinn sagður vera að hvetja kjósendur til að þrýsta á um breytingar sem leitt geta til lægra matarverðs hér á landi.

„Ef kjósendur þrýsta á stjórnmálamenn að afnema það sem kaupmenn telja gamaldags tolla, flókin vörugjöld og úrelt innflutningshöft, þá segjast kaupmenn geta lækkað verð eftir kosningar á mörgum matvörum um 30-40% og meðalinnkaupakörfu íslenskra heimila um 10%,“ segir í tilkynningunni. 

Er dagurinn í dag sagður marka upphaf átaks Samtaka verslunar og þjónustu til að vekja athygli á þrenns konar aðgerðum til að stórauka kaupmátt á Íslandi. Leggja samtökin m.a. til breytingar í virðisaukaskatti, lækkun innflutningstolla, afnám vörugjalda og niðurfellingu innflutningshafta.

„Allt hækkar í verðbólgunni á Íslandi og heimilin eru að kikna undan útgjöldunum. Almennar launahækkanir halda ekki í við hækkun mánaðarlegra reikninga. Komum kaupmætti heimilanna á dagskrá í kosningunum,“ segir í tilkynningunni.

Vert er að geta þess að hið stórlækkaða matarverð verður einungis í boði í eina klukkustund, eða frá klukkan 13 til 14.

Pétur Guðmundsson, kaupmaður í Melabúðinni, og Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, munu dreifa bæklingum og ræða við viðskiptavini um viðhorf þeirra til núverandi hafta- og tollafyrirkomulags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert