Björgunarsveitir frá Ísafirði og Hnífsdal voru kallaðar út í nótt til að aðstoða sjúkralið við að ná manni upp úr sandsílói við steypustöðina í bænum. Hafði hann fallið um 5 metra ofan í gryfjuna. Verkið reyndist nokkuð umfangsmikið og töluverðan búnað þurfti til að hægt væri að síga niður í sílóið þar sem búið var um manninn.
Þegar kom að því að hífa hann upp fyrir brúnina þurfti aðstoð kranabíls. Verkið tók því hátt í tvo tíma og tóku um 20 björgunarsveitarmenn þátt.
Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að maðurinn, sem var gestur á hátíðinni Aldrei fór ég suður, hafi gefið þær upplýsingar um ferðir sínar að hann hann hafi verið að leita leiðar að bakdyrum tónleikastaðarins þegar hann féll.
Ætlaði hann reyna að hitta á Fjallabræður baksviðs og fá eiginhandaráritanir þeirra.
Fjallabræður voru á sviði á Ísafirði um klukkan 22:00 í gærkvöldi en maðurinn rankaði við sér og hringdi eftir aðstoð á fjórða tímanum í nótt. Hann hefur því legið í töluverðan tíma í sílóinu. Þegar komið var að reyndist hann töluvert hruflaður eftir fallið en óbrotinn.