„Það varð allt vitlaust“

Friðrik Ármann Guðmundsson kaupmaður.
Friðrik Ármann Guðmundsson kaupmaður. Ómar Óskarsson

„Það varð allt vitlaust hér í klukkutíma [...] Það er virkilega gaman að geta sýnt fram á hvað matarverð getur lækkað þegar horft er fram hjá úreltum innflutningshöftum og tollum,“ segir Friðrik Ármann Guðmundsson, kaupmaður í Melabúðinni, en verslun hans stórlækkaði verð á matvöru í eina klukkustund í dag.

Í fyrri frétt mbl.is um verðlækkunina kemur m.a. fram að með þessu sé verið að hvetja kjósendur til að þrýsta á breytingar sem leitt geta til lægra matarverðs hér á landi. En milli klukkan 13 og 14 bauð Melabúðin viðskiptavinum sínum upp á matvöru á því verði sem kaupmenn telja mögulegt að selja þær á eftir komandi alþingiskosningar.

Friðrik Ármann segir samstarfsfólk sitt hafa rætt við viðskiptavini ásamt fulltrúum frá Samtökum verslunar og þjónustu. „Það er náttúrulega alveg ótrúlegt að matvara geti lækkað um 30-40% bara með því að leggja af tolla og innflutningsgjöld,“ segir Friðrik Ármann og bendir á að þótt ríkið missi einhvern spón úr aski sínum geti það hæglega náð inn tekjum með öðrum hætti, enda örva breytingarnar sölu til muna.

Meðal þess sem Melabúðin lækkaði í verði voru kjúklingabringur, nautalundir og parmaskinka. Kjúklingabringurnar lækkuðu úr krónum 2.849 í 1.699 krónur kílóið, innfluttar nautalundir lækkuðu úr krónum 5.989 í 4.198 krónur og 70 gr. pakki af parmaskinku lækkaði úr krónum 649 í 298 krónur.

„Þetta er gríðarlegur munur,“ segir Friðrik Ármann og þarf vart að taka fram að tilboðsvörur seldust eins og heitar lummur.

Dagurinn í dag er sagður marka upphaf átaks Samtaka verslunar og þjónustu til að vekja athygli á þrenns konar aðgerðum til að stórauka kaupmátt á Íslandi. Leggja samtökin m.a. til breytingar í virðisaukaskatti, lækkun innflutningstolla, afnám vörugjalda og niðurfellingu innflutningshafta.

„Ef kjósendur þrýsta á stjórnmálamenn að afnema það sem kaupmenn telja gamaldags tolla, flókin vörugjöld og úrelt innflutningshöft, þá segjast kaupmenn geta lækkað verð eftir kosningar á mörgum matvörum um 30-40% og meðal innkaupakörfu íslenskra heimila um 10%,“ segir í tilkynningu sem Melabúðin og Samtök verslunar og þjónustu sendu frá sér í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka