Brotnaði illa í vélsleðaslysi

Menn á vélsleðum.
Menn á vélsleðum. Ómar Óskarsson

Vélsleðamaðurinn sem slasaðist í Bíldsárskarði á Vaðlaheiði fyrr í dag var fluttur undir kvöld með sjúkraflugi á Landspítalann. Maðurinn hlaut fjölda beinbrota og skemmdir á ósæð. Upplýsingar um líðan hans liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Maðurinn var í vélsleðaferð á Vaðlaheiði ásamt félögum sínum. Samkvæmt heimildum mbl.is varð slysið þegar maðurinn kom á töluverðri ferð að mýrarfeni þar sem jarðhiti bræðir snjóinn jafnóðum. Sleðinn flaug fram af hengju og á snjóbakka hinum megin við fenið með þeim afleiðingum að maðurinn skall af fullum þunga á stýri sleðans og síðan fram yfir sig. Hann úlnliðsbrotnaði, handarbrotnaði og rifbeinsbrotnaði við höggið. Jafnframt er talið að hann hafi ökklabrotnað. Taka ber fram að maðurinn notaði allan þann öryggisbúnað sem vélsleðamönnum ber að nota.

Manninum vildi til happs að sjúkraflutningamaður og björgunarsveitarmaður voru með í för og gátu þeir veitt honum fyrstu hjálp.

Slysið átti sér stað um klukkan 14 í dag og var maðurinn kominn á Sjúkrahúsið á Akureyri um tveimur klukkustundum síðar. Eftir skoðun þar var ákveðið að senda hann með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert