Lögreglan las þeim pistilinn

Fjórir unglingar voru staðnir að því að sitja öll á …
Fjórir unglingar voru staðnir að því að sitja öll á einni vespu sem ekið var gegn rauðu umferðarljósi á gatnamótum í austurborginni í gærkvöldi. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

„Það vakti furðu lögreglumanna í kvöld er þeir voru við eftirlit í austurborginni að yfir gatnamót skammt frá þeim var lítilli vespu ekið yfir gatnamótin, gegn rauðu umferðarljósi. Það er svosem ekki frásögu færandi að lögreglumenn verða vitni að umferðarlagabrotum en þetta gerði það samt,“ segir á facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi.

„Faratækið, litla vespan, hafði að bera ökumann (13 ára) auk þrjá farþega á sama aldri. Sá sem fremst „sat“ var í hnipri undir stýrinu, annar hélt utan um þann farþegann. Þriðji var svo ökumaðurinn og aftan við hann sat fjórði farþeginn og ríghélt sér í ökumanninn. Sá sem aftast sat var sá eini með hjálm. Þéttsetinni vespunni var svo botngefið yfir þessi fjölförnu gatnamót, þar sem umferðarhraði er yfirleitt mikill, gegn rauðu umferðarljósi. Mildi þykir að ekkert kom fyrir,“ segir í færslunni.

Þá segir einnig: „Lögregla stöðvaði háttsemi þeirra og „las þeim pistilinn“. Öll börnin voru færð í hendur foreldra og farið yfir málsatvik. Foreldrar þeirra ætluðu í kvöld að fara betur yfir þetta með börnum sínum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert