„Íslendingar, sem oft eru mærðir fyrir aðferðir sínar við að ná tökum á efnahagskreppunni haustið 2008, hafa eitt og annað að kenna Kýpverjum um hvernig eigi að takast á við efnahagsþrengingar: forðast einangrun og halda ró sinni því það tekur tíma fyrir efnahaginn að ná jafnvægi á ný,“ segir í fréttaskýringu á AFP-fréttaveitunni þar sem ástandið á Kýpur er borið saman við efnahagsástandið á Íslandi haustið 2008.
Þessi eyja í Norður-Atlantshafi átti í sambærilegum efnahagsörðugleikum og Kýpur, með uppblásinn fjármálamarkað þar sem þrír stærstu bankarnir áttu eignir sem jafngiltu 923% af vergri landsframleiðslu.
Þegar bankarnir þrír í Reykjavík féllu haustið 2008 ákváðu Íslendingar að láta þá falla - rétt eins og Kýpverjar eru að gera nú með sinn næststærsta banka, Laiki-banka.
„Það eru líkindi, sumir fjármagnseigendur festust með fjármagn sitt inni í bankanum eftir svo að segja sömu sögu, fall fjármálakerfisins sem var allt of stórt,“ segir Jacob Kirkegaard, hagfræðingur hjá Washington Peterson-stofnuninni.
Þann 15. september 2008 þegar Lehman bræður lýstu yfir gjaldþroti var aðgangur að lánsfjármagni frystur um heim allan.
Fyrir þrjá stærstu bankana á Íslandi, Glitni, Landsbanka og Kaupþing, varð gjaldþrot alvöru ógn í kjölfarið. Bankarnir höfðu fengið mikið fjármagn að láni vegna haftalausrar útþenslu og voru mjög háðir lánsfjármagni.
Ríkisstjórnin tók harðra afstöðu og þingið samþykkti yfirtöku á bönkum þann 9. október einungis þremur vikum eftir fall Lehman bræðra.
Síðan gaf íslenska ríkið það út að ekki stæði til að bjarga hinum risavöxnu bönkum, eitthvað sem hafði áður verið talið öruggt að yrði gert. Með því vildi ríkið forða sér frá ofvöxnum skuldum og þannig hraða efnahagsbatanum.
Lánardrottnar, hluthafar og erlendir innistæðueigendur enduðu á því að taka á sig skellinn vegna bankahrunsins. Með því féllu bankar sem áður höfðu haft lánshæfiseinkunnina AAA, frá alþjóðlegum greiningarfyrirtækum, á nokkrum vikum.
Einungis Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom til aðstoðar, þó svo að Norðurlandaþjóðirnar hafi síðar hlaupið undir bagga. Og líkt í Kýpverjar nú trúðu Íslendingar því að þeir gætu fengið lán frá Rússlandi, þó Rússar hafi síðar bakkað út úr því.
Fjórum og hálfu ári síðar hefur hin djúpa kreppa á Íslandi skilið eftir sig ljót ör á efnahags- og fjármálakerfi landsins.
Til viðbótar við pólitíska upplausn og langt tímabil þar sem reynt var að átta sig á því hvernig efnahagsþrengingarnar byrjuðu í upphafi, hefur þjóðin sem telur um 320.000 manns, farið í gegnum langt tímabil fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrir bæði fyrirtæki og heimili, sem sum hver höfðu fengið erlend lán til fasteignakaupa.
Lánardrottnar og skuldarar munu finna fyrir áhrifum „skuldafyllerísins“ á fyrsta árutug þessarar aldar í langan tíma.
Samkvæmt því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gefið út munu bankarnir áfram vera mjög háðir innlánum erlends gjaldeyris sem er í höftum á Íslandi. Fjármálahöftin sem voru kynnt til sögunnar árið 2008 munu verða áfram og í nóvember á síðasta ári hélt AGS því fram að þau myndi vara að minnsta kosti til ársins 2015.
Og fyrir því er ástæða þar sem eigendur fjármagnsins gætu hæglega viljað ná því úr landi.
Það eru litlir möguleikar fyrir fjármagnseigendur til að ná sér í gróða á meðan húsnæðismarkaðurinn er í láginni, verðbréfamarkaðurinn í litlum vexti og eftirspurn eftir fjármagni hvergi nærri því sem var þegar Ísland varð óeðlilega ríkt á sínum tíma.
Þessi einangrun hefur fengið erlenda fjárfesta til að horfa annað og hefur dregið verulega úr allri fjárfestingu. Þeirra hluti í vergri landsframleiðslu féll niður í 14% árið 2012 sem er um helmingurinn af því sem var árið 2007, samkvæmt nýlegum tölum.
Íslenska efnahagskerfið náði skjótum bata og hagvöxtur varð að nýju árin 2010 og 2011, en nokkuð dró úr hagvexti árið 2012 þegar hann varð einungis 1,6%. Atvinnuleysi hefur hinsvegar haldið áfram að dragast saman og féll niður í tæplega 5% í febrúar á þessu ári, sem hefur ekki gerst síðan árið 2008.
„Fjárfesting er hæg … Í raun hefur Íslandi verið kippt úr sambandi við efnahag Evrópu og fjármálakerfið þar,“ sagði Ásgeir Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Með hófsaman og takmarkaðan fjármálamarkað treystir íslenska hagkerfið nú á fiskveiðar og ferðamannaiðnað. Árið 2012 komu um 672.000 erlendir gestir til landsins sem var um 19% aukning frá árinu á undan.
„Lærdómurinn sem Kýpur getur dregið er að það þarf að taka hraðar og afdrifaríkar ákvarðanir varðandi bankana, en um leið verða þeir að halda sig við evruna. Ef þeir fara úr myntbandalaginu þá mun efnahagsbatinn taka lengri tíma,“ sagði Ásgeir við AFP.