„Það voru þarna tveir bústaðir og eldurinn var nánast kominn í annan þeirra þegar við komum á staðinn,“ segir Guðni Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á Hellu, í samtali við mbl.is en sinueldur kviknaði í dag við sumarbústaðaland skammt frá Galtalækjarskógi. Hann segir að mjög þurrt sé á svæðinu en eldurinn hafi kviknað út frá neista frá grilli. Um þrír hektarar brunnu að hans sögn.
„Það er allt svo svakalega þurrt. Það var verið að grilla þarna en þau misstu bara neista þarna. Þau voru með slökkvitæki og allt og reyndu að slökkva eldinn en réðu ekki við neitt,“ segir Guðni. „Við erum bara á tánum vegna þessara þurrka. Það er full ástæða til þess að hvetja fólk til þess að fara mjög varlega með allan eld. Þetta er svo fljótt að verða óviðráðanlegt.“
Þegar slökkviliðið kom á vettvang voru allir sem vettlingi gátu valdið á staðnum farnir að berjast við eldinn. „En þú ræður ekkert við þetta nema koma vatni að þessu. Þetta er svo mikið. Það er mikið um lúpínu þarna, tré og mosa. Þannig að þetta eru alveg kjöraðstæður fyrir eldinn. Þegar þetta er síðan svona nálægt fjöllum breytist vindáttin svo rosalega hratt.“
Eftir að farið var að dæla vatni á eldinn tókst fljótlega að ná tökum á honum og slökkva hann að sögn Guðna. Eins og fyrr segir var eldurinn kominn nálægt tveimur sumarbústöðum þegar slökkviliðið kom á vettvang og var strax farið í það að verja þá. Það hafi tekist og síðan hafi verið ráðið niðurlögum eldsins.
Eins og mbl.is fjallaði um kviknaði einnig sinueldur í gærkvöldi við sumarbústaðaland í Skorradal en þar kviknaði eldurinn út frá flugeldum. Rætt var við Bjarna Kr. Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð, í dag vegna þess.