Umhverfismál á oddinum

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. Kristinn Ingvarsson

Það er hálfgert uppþot í alþingishúsinu þegar blaðamaður sest niður með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, á þriðjudagskvöldi fyrir páska. Það er verið að semja um starfslok þingsins. Gengur á ýmsu. Og nærtækast að spyrja Katrínu um andrúmsloftið í þinginu.

„Það er erfitt í augnablikinu,“ svarar hún blátt áfram. „Gengið hefur illa að ná samkomulagi um hvernig eigi að ljúka þingstörfum. Ég hef aldrei verið beinn þátttakandi í þeim viðræðum, en er nú komin í það hlutverk sem formaður. Og það er undarlegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í. Það er bara svoleiðis.“

– Það liggur beint við að spyrja hvort slá þurfi nýjan tón í stjórnmálum.

„Frá því ég byrjaði í pólitík og frá því ég gaf kost á mér sem varaformaður hef ég talað fyrir því að fólk hefji sig að einhverju leyti upp yfir hefðbundnar átakalínur,“ segir hún. „Kannski er þetta þreytt orðræða, því nú tala allir á þeim nótum. Það sem mestu máli skiptir er að ekkert gerist nema hver og einn ákveði að gera eitthvað í því sjálfur og nálgist viðfangsefnin málefnalega. Maður fer inn í þingið með þennan góða ásetning. En enginn venjulegur þingmaður kemst þó yfir að greina allt fyrir sjálfan sig þannig að auðvitað leggur maður traust á félaga sína – að þeir nálgist málin þannig líka.“

– Hver er afstaða þín gagnvart þeim drögum sem liggja fyrir að nýrri stjórnarskrá og hvað segirðu um gagnrýni fræðasamfélagsins á hana?

„Ég hef verið fylgjandi því að byggja á þessari vinnu. En ég vil líka að við gefum okkur tíma í það. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lagt mikla vinnu í þetta plagg frá því stjórnlagaráð skilaði því af sér. Eftir að formaður Samfylkingarinnar taldi tímann of stuttan til að klára málið um síðustu mánaðamót var mitt mat að best færi á því að við, ásamt formanni Bjartrar framtíðar, sem hefur talað fyrir því líka, tryggðum að ferlið héldi áfram á næsta kjörtímabili. Það er í takt við það sem við höfum sagt allan tímann, að breyta ekki einstökum ákvæðum heldur ráðast í heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Það var niðurstaða þessara flokka sem hafa verið í meirihluta... eða minnihluta,“ segir hún brosandi, „eða að minnsta kosti verið taldir í meirihluta, að rökrétta leiðin væri að breyta breytingaákvæðinu, þannig að við gætum breytt stjórnarskránni án þess að þurfa að bíða til loka kjörtímabilsins.

En það er margt sem hægt er að vinna betur og ná sátt um. Auðlindaákvæðið þótti okkur mikilvægast. Ég held að umræðan í samfélaginu hafi þróast mikið og auðlindaákvæðið frá árinu 2000 sem Framsókn tefldi fram um daginn er til dæmis úrelt, en það gerir ráð fyrir að nýtingarréttur geti að einhverju leyti skapað óbeinan eignarrétt. Þrettán árum seinna er pólitíska umræðan sú að tryggja sameign á auðlindum og veita ekki þennan óbeina eignarrétt. Ég ætla ekki að útiloka að við getum lent góðu auðlindaákvæði. En þetta hefur verið pólitískt bitbein og snýst um það hver ræður auðlindunum.“

Engin uppreisn

– Markar formannskjör þitt kaflaskil eftir langa formannstíð Steingríms J. Sigfússonar?

„Þetta eru auðvitað kaflaskil fyrir hreyfinguna, sem var stofnuð árið 1999 og hefur haft sama formann frá upphafi. Ég skráði mig í flokkinn árið 2002 og er ekki einn af stofnfélögum hans. En mér fannst miklu máli skipta að til væri flokkur með umhverfismál sem lykilatriði í stefnu sinni. Þetta er fyrsta stjórnmálahreyfingin sem setur þau mál á oddinn og mér finnst hún enn eina hreyfingin sem gerir það. En það er erfitt að tala um kaflaskil eftir að við höfum starfað saman í tíu ár sem formaður og varaformaður. Við höfum staðið þétt saman, þannig að það er ekki eins og hér hafi verið gerð uppreisn. En við erum ólíkir einstaklingar og eigum okkur ólíka sögu. Hann er maður sem ferðast um á hestbaki í Þistilfirði með haglabyssu á bakinu, en ég er úr blokk í Reykjavík. Hann er ævintýramaður sem ferðast um heiminn og ég er bókmenntafræðingur!“

Hún hristir höfuðið.

„Ég er týpískur lattelepjandi lopatrefill. Og alltaf þegar ég kem út á land bið ég sérstaklega um kaffi latte og fæ það alltaf – alls staðar. Það er bara mýta að það sé bara fáanlegt í 101 Reykjavík.“

Hún þagnar.

„Þetta verður nú eitthvað sérstakt viðtal! Get ég tekið þetta allt til baka á morgun?“

Svo hlær hún innilega. Í því hringir bjallan.

„Nei, atkvæðagreiðsla! Ég verð að fara. Hún verður örugglega mjög stutt.“

Hún er rokin. Augnabliki síðar sest hún aftur.

„Þetta er nú meira... Það var hætt við atkvæðagreiðsluna!“

Fjall sem lenti ofan á okkur

– Nokkrir þingmenn Vinstri-grænna hafa sagt sig úr hreyfingunni á kjörtímabilinu og komin eru fram tvö klofningsframboð, annars vegar Regnboginn og hins vegar Alþýðufylkingin. Það hlýtur að þyngja róðurinn fyrir kosningarnar.

„Það er ljóst að átök hafa sett svip sinn á þetta kjörtímabil og við förum inn í kosningabaráttuna við aðstæður sem eru ólíkar síðustu kosningum þegar við vorum með samhent lið og alveg ábyrgðarlaus af hruninu. En við vissum að verkefnið yrði erfitt og það hefur haft sitt að segja á kjörtímabilinu. Við erum búin að missa þrjá þingmenn, en fá einn annars staðar frá og það hefur gengið á ýmsu. Auðvitað hefur það áhrif að missa eina þingmanninn í Suðurkjördæmi og tvo af þremur í Norðvesturkjördæmi. Það er að sjálfsögðu blóðtaka fyrir hreyfinguna. Svo hætti Guðfríður Lilja Grétarsdóttir á þingi og hélt til annarra starfa. Hún er samt enn með okkur og var öflugur þingmaður.

Við eigum líka öfluga sveitarstjórnarmenn um allt land, en þingmenn sjá gjarnan um að halda sínum svæðum saman. Það er því heilmikil vinna framundan hjá þeim sem eru nýir í framboði. Fyrir utan að átök innan flokka setja ekki góðan svip á starf hreyfingarinnar og það verður fyrir vikið ekki eins spennandi vettvangur. Það er nokkuð sem við höfum rætt á okkar fundum á kjörtímabilinu, hvernig við getum snúið bökum saman. Fá mál hafa verið meira rædd. Ég átti til að mynda ágætan fund í dag með efstu frambjóðendum úr öllum kjördæmum, þar sem kom fram að það er skýr sýn sem við deilum.“

Mörg málefni

Hvaða málefni eru það?

„Þau eru auðvitað mörg eftir að hafa sett í forgrunn undanfarin ár að koma ríkisfjármálunum í eðlilegt horf, að reisa fjall sem var lent ofan á okkur eftir hrunið. Mér finnst við núna fyrst geta horft til framtíðar og velt fyrir okkur hvað við ætlum að gera. Við viljum efnahagsstefnu með þrepaskiptu skattkerfi sem stuðlar að meiri jöfnuði, auðlindagjald sem tryggir eðlilega rentu fyrir auðlindirnar, stöðuga og ekki of hraða uppbyggingu atvinnulífs á fjölbreyttum stoðum. Þess vegna höfum við skapað umræðu um atvinnuuppbyggingu sem felst í skapandi greinum, nýsköpun og þekkingariðnaði. Það tryggir aftur svigrúm til að efla grunnstoðirnar, menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Niðurskurðurinn hefur því miður komið niður á heilbrigðiskerfinu, sem var aðþrengt fyrir. Miklu skiptir líka að byggja upp háskólana sem lengi hafa verið vanfjármagnaðir í alþjóðlegum samanburði.

Við viljum nýta svigrúmið til að styrkja grunnstoðirnar og bæta kjör almennings með því að efla almannatryggingakerfið og leiðrétta laun kvennastéttanna. Það átak hófst með hjúkrunarfræðingum á Landspítalanum og við viljum einnig fara inn í kennarastéttirnar. Svo nefni ég verkefni sem er ekkert sérlega spennandi kosningaloforð, að greiða niður skuldir þjóðarinnar – en það verður að gera! Mikið er rætt um svigrúmið sem skapast við að losa út krónueignir og þeim fjármunum hefur þegar verið ráðstafað oft, en ég vil byrja á að greiða niður yfirdráttinn. Það er staðreynd að vaxtagjöld ríkisins af skuldum sínum eru 90 milljarðar á ári. Þetta eru stóru verkefnin. Ég hef vakið athygli fyrir að vera ekki með nein risaloforð. Og þannig verður það í þessari baráttu.“

Bætt lífskjör stóra verkefnið

– Þú segist ekki vera með óábyrg kosningaloforð en þó var lofað skjaldborg um heimilin.

„Helsta loforðið sem ég gaf fyrir kosningar var að hækka skatta og lækka laun. Ég lét þessi orð falla í sjónvarpsþætti og þegar ég kom á fund daginn eftir var ég tekin á teppið! En þetta var augljóst öllum árið 2009 og eins gott að segja það. Það sem við gerðum fyrir heimilin var að standa fyrir margvíslegum úrræðum fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum. Það var þörf fyrir almennar aðgerðir og sérstakar vaxtabætur voru liður í því. En það breytir því ekki að kreppan hafði neikvæð áhrif á kjör allra stétta, minna var um yfirvinnu og kaupmáttur ráðstöfunartekna rýrnaði. Stóra verkefnið er því að bæta lífskjörin. Það gerist ekki nema með stöðugleika í efnahagslífi og fjölbreyttu atvinnulífi, ekki bara fiski, álverum og bönkum. Hugsunin þarf að vera víðfeðmari.

Umhverfismál byggjast á skynsamlegri stefnu í atvinnumálum. Að sjálfsögðu þurfum við að vinna úr okkar auðlindum með hugviti og nýsköpun, þar eigum við að efla okkar grunnrannsóknir og nýta þær. Við kortlögðum hagræn áhrif skapandi greina og þær veltu 189 milljörðum á ári, svipað og álverin. Fólk hefur ekki rætt um listir sem atvinnugrein fyrr en síðustu árin. Við lyftum undir þá umræðu og sýndum að atvinnulíf snýst um meira en eina lausn. En þegar við tölum um loforðin, þá hræðist ég jafnan þegar einhver segir: „Ég er með heildarlausnina.“ Ef það er of gott til að vera satt, þá er það of gott til að vera satt. Það sagði ég við konuna í bakaríinu sem kvartaði við mig undan þinginu í morgun. Og henni fannst það góður punktur hjá mér!“

Gætt sé varúðar í olíuleit

„Það vantar framsögumann í efnahags- og viðskiptanefnd! Hvar er hann!“ kallar forseti Alþingis. „Er það ekki Helgi Hjörvar?“ kallar Katrín á móti. „Ekki ætla ég að bera ábyrgð á honum,“ kallar Svandís Svavarsdóttir. Hróp og köll. Enn er líf í tuskunum í matsalnum. En við höldum okkur við samtalið.

– Þú talar um fjölbreytt atvinnulíf. Það er umdeilt innan þíns flokks út frá umhverfissjónarmiðum að ráðast í stóriðju á Bakka og olíuleit.

„Það er spurning hvort þetta telst stóriðja,“ svarar Katrín. „Ég myndi skilgreina Bakka sem meðalstóran iðnað. Við erum umhverfisverndarflokkur, en samt ekki á móti uppbyggingu alls iðnaðar. Það þarf að meta hverja framkvæmd fyrir sig. Við höfum staðið á bak við þessa ákvörðun, meðal annars vegna þess að orkan kemur úr Þeistareykjum sem eru í nýtingarflokki í nýsamþykktri rammaáætlun og af því að þar skapast fleiri störf fyrir orkuna en í álveri. Ég hef einmitt bent á að stundum má líta til annars konar iðnaðar en stóriðju. En um leið er ljóst að losun gróðurhúsalofttegunda er mikil, það þarf að meta í hvert sinn og gæta ýtrustu varúðar og að sjálfsögðu þarf að gæta að lífríkinu á Mývatnssvæðinu en Mývatn og Laxá njóta auðvitað sérstakrar verndar. Mér finnst eðlilegt fyrir hreyfingu eins og okkar, þó að við leggjumst ekki gegn öllum iðnaði, að gætt sé varúðar og tryggt að fylgt sé niðurstöðum umhverfismats.

Olían er stærra mál. Hversu mikinn þátt eigum við að taka í leit að óendurnýjanlegum orkugjöfum? Það er full ástæða til að viðhafa fyllstu varúðarsjónarmið, en um leið að ræða hvaða stefnu við ætlum að móta. Hvernig rímar þetta við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa? Þessar andstæður hafa verið teiknaðar upp sem innri togstreita, en við verðum að leyfa okkur að setja þessi mál í stóra samhengið. Þó að við vitum ekki hverju leitin skilar eigum við að nota tækifærið og ræða hvað okkur finnst. Til hvers á að nýta olíuna? Er til dæmis betra að vinna olíu á þessum slóðum en gas undir íshellunni á norðurpólnum? Það þarf að ræða þetta í heildarsamhengi, ekki bara út frá séríslenskum hagsmunum.“

Ár til að ljúka aðildarviðræðum

– Svo við víkjum aftur að innri átökum í Vinstri-grænum. Hvernig hefur þér tekist sem varaformaður að standa fyrir utan hjaðningavígin?

„Ég er ekki mikil átakamanneskja. Ég er ekki góð í því,“ segir Katrín og fórnar höndum. „Ég er betri í að sætta fólk en að lenda í átökum við það. Það er galli og kostur hjá stjórnmálamanni.“

– Þú hefur lýst þig andvíga aðild að Evrópusambandinu. Hvernig rökstyður þú það?

„Fyrir mér er Evrópusambandið mjög markaðssinnað fyrirbæri. Það byggist í grunninn á að búa til markað fyrir Evrópu. Að sumu leyti á það líka við um EES. Síðan hefur margt gerst innan ESB í félags- og umhverfismálum, en drifkrafturinn hefur frá upphafi verið viðskipti og kapítalismi. Það sést greinilega þegar ESB tekst á við fjármálakreppuna, þá eru kallaðir til tíu karlar yfir miðjum aldri, sem allir eru beintengdir fjármálageiranum, til að veita ráðgjöf um hvert eigi að fara. Þetta er mjög kapítalískt fyrirbæri og þess vegna hef ég sagt að við Íslendingar getum farið okkar eigin leið.

Ég sat með hins vegar í nefnd sem Björn Bjarnason stýrði frá 2003 til 2007 og eftir að hafa kynnst ESB frá ólíkum hliðum er mín niðurstaða ekki svarthvít. Það hvort við eigum að ganga inn eða ekki er stórpólitískt viðfangsefni sem hefur verið í umræðunni í 20 ár eða síðan við gerðumst aðili að EES. Þess vegna stóð ég með þeirri ákvörðun að sækja um aðild, því ég tel þetta mál sem á endanum komi til kasta þjóðarinnar. Fólk hefur ólíka sýn og kannski snýst þetta á endanum um hvar við staðsetjum okkur. Ég átta mig á að myndin er ekki svarthvít og þess vegna stóð ég með því að fara í þennan leiðangur, sem hefur verið umdeild ákvörðun innan míns flokks og minnar hreyfingar.“

– Það vakti athygli að þú varðst undir í atkvæðagreiðslu um ESB á landsfundinum. Þú vildir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildarviðræðum yrði haldið áfram, en það varð ofan á að tímasetja aðildarviðræðurnar.

„Ég taldi þjóðaratkvæðagreiðslu líklegri til að sætta ólík sjónarmið. En önnur tillaga var samþykkt og ég stend með þeirri tillögu. Hún gengur út á að ljúka aðildarviðræðunum og leggja efnislegar niðurstöður í dóm þjóðarinnar innan tilskilins tíma. Við höfum rætt um ár, án þess að dagsetningin sé nákvæm, og það tengist því að mörg okkar höfðum þá trú þegar við fórum út í þetta ferli að við yrðum komin með niðurstöðuna núna.“

– Erfiðustu kaflarnir hafa ekki enn verið opnaðir. Hvað ef þessi tímarammi helst ekki?

„Það er búið að vinna mikla undirbúningsvinnu, en það er rétt að stór mál eru eftir, sjávarútvegur, landbúnaður, byggðamál og gjaldmiðillinn. Við leggjum áherslu á að fá fram niðurstöðu eins hratt og mögulegt er.“

Ekki fylgjandi álveri í Helguvík

– Þú fékkst gagnrýni á frumvarp þitt um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna úr óvæntri átt. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðherra sagði að tillögurnar næmu ekki tveimur milljörðum á ári heldur 4,7 milljörðum og gagnrýndi verklagið við undirbúninginn. Er þetta óábyrgt kosningaloforð?

„Nei, það finnst mér ekki. Umræðan hér á þinginu hefur verið feikilega góð. Fulltrúar allra flokka hafa áhuga á að skoða þessa leið og ég held að enginn upplifi hana sem óábyrgt kosningaloforð. Við höfum unnið að henni í fjögur ár. Mitt keppikefli var að stuðla að jafnrétti í námi. Þess vegna höfum við hækkað grunnframfærslu námslána um 10% umfram verðlagsþróun á þessu kjörtímabili. Svo lögðum við fram tillögu um að afnema ábyrgðarmenn á námslánum frá og með 2009. Það skipti miklu máli. Ég hefði viljað fara fleiri leiðir með lánasjóðinn, þannig að frumvarpið er að einhverju leyti málamiðlun við sjálfa mig. Við skoðuðum að taka upp samtímagreiðslur og leggja þannig af þann sið að námsmenn þyrftu að taka yfirdrátt í banka, en sú aðgerð var mjög dýr. Við skoðuðum líka að fella niður námslán um sjötugt. En enduðum með þá útfærslu sem við töldum raunhæfasta. Hún felst í því að hluti af höfuðstól fellur niður ef fólk lýkur námi á tilskildum tíma. Ég er sannfærð um að hún hefur mikil og góð þjóðhagsleg áhrif, bæði á framhalds- og háskólastigi. Íslendingar eru almennt lengi í sínu námi og niðurfelling á hluta höfuðstóls lána getur virkað hvetjandi til að ljúka því. Hagfræðistofnun HÍ er ætlað að skoða þjóðhagslegu áhrifin og ég er sannfærð um að náðst geti sátt um tillögurnar í þinginu, þó að þær auðvitað kosti sitt.“

– Nú dúkkaði álver í Helguvík aftur upp í umræðunni.

„Ég er ekki fylgjandi slíkri uppbyggingu. Það hefur verið umræða um annars konar uppbyggingu sem vert er að skoða, en við erum nú þegar með nokkur stór álver. Eins og ég hef talað um allt þetta kjörtímabil, þá eigum að horfa á fjölbreyttar leiðir. Auk þess liggur ekki fyrir hvernig nákvæmlega á að útvega orkuna í Helguvík.“

– Hvernig vilt þú að tekið verði á málefnum kröfuhafa gömlu bankanna?

„Við erum kannski að einhverju leyti sammála um það á þinginu og höfum unnið samkvæmt áætlun um losun gjaldeyrishafta, sem gerir ráð fyrir að krónueignirnar verði verðfelldar. Á meðal leiða sem við getum farið er ríflegur útgönguskattur, rætt hefur verið um að ríkið verði milliliður í viðskiptum um þessar krónueignir og lykilatriðið er auðvitað alltaf að standa vörð um íslenska hagsmuni. Liður í því var að afnema tímamörkin á gjaldeyrishöftunum og það var gert í sátt á þinginu. Þarna skiptir mestu að flýta sér hægt. En markmiðin eru alveg ljós. Eina spurningin er sú hversu mikill hagnaðurinn verður og hvort einstakir stjórnmálamenn séu búnir að ráðstafa honum öllum. En ef það gengur eftir höfum við svigrúm til að greiða niður skuldir.“

Pólitík hversdagsins

– Þú lýstir því yfir á miðju kjörtímabili að áframhaldandi samstarf við Samfylkinguna væri ákjósanlegt.

„Ég hef alltaf verið talsmaður samstarfs vinstra megin frá því ég hóf þátttöku í stjórnmálum sem fulltrúi númer 18 á Reykjavíkurlistanum.“

– Upphaflega var það Evrópusambandið sem klauf Vinstri-græna frá Samfylkingunni. Hvað stendur í veginum núna?

„Það var ekki aðeins Evrópusambandið heldur utanríkismálin í heild. Við erum andvíg þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og það er mjög stórt mál í huga margra innan hreyfingarinnar. Ég gekk í flokkinn út af umhverfismálunum, en áhugi minn á stjórnmálum á rætur í sögu 20. aldarinnar, hvernig hernaðurinn og kraftarnir að baki kalda stríðinu höfðu áhrif á hversdagslíf fólks. Pólitík snýst alltaf um það sem er hversdagslegt, að eiga þak yfir höfuðið, fjölskyldu og vinna fyrir sér. Þegar stríð geisar í heiminum, þá er það oft að óþörfu og það sýnir hversu mikið grundvallaratriði pólitíkin er. Fyrir okkur er þátttaka í Atlantshafsbandalaginu, þó að einhverjir líti á það sem friðargæslu, þátttaka í hernaðarbandalagi sem byggt er á hernaðarsamstarfi og hefur staðið í vegi fyrir friðarþróun í heiminum. Áherslan á þetta atriði er mikil, en flokkarnir eiga margt sameiginlegt í öðrum málum, svo sem félagsmálum og jafnréttismálum og uppbyggingu velferðarkerfis.“

– Hvað höfum við ekki rætt í þessu samtali?

„Þú nefndir ekki femínisma,“ svarar Katrín. „Þar höfum við staðið okkur vel. Það er í alvöru þannig að maður verður meiri femínisti eftir því sem maður starfar lengur á þingi. Og það skiptir máli af hvoru kyninu maður er. Þegar ég var yngri hafði ég trú á að þessi mál væru í raun leyst, en ég er farin að halda að John Stewart Mill hafi haft rétt fyrir sér, að þetta misrétti sé rótgrónast af því að það sé svo stór hluti af sjálfsmynd okkar. Ég held að það skipti ótrúlega miklu máli að konur taki þátt í stjórnmálum og öllu því sem snýr að ákvörðunum í samfélaginu. Ef þeirra nyti alltaf við yrðu ákvarðanirnar að mörgu leyti öðruvísi. Það að ég væri alltaf að segja öðrum konum að taka þátt varð til þess að ég ákvað sjálf að gefa kost á mér til formennsku.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert