Fjöldi fólks vildi skoða myndbandið af unga fólkinu sem var gripið með buxurnar á hælunum á bílastæðinu við Rauðavatn og varð fréttin fljótt sú mest lesna á mbl.is. Pirruðu sig eflaust margir á því að villa kom upp þegar Árni Friðleifsson varðstjóri ætlaði að fara að banka á rúðuna og stöðva leikinn en myndbandið, og villan, var hluti af aprílgabbi vefjarins.
Gabbfréttin er sú langmest lesna á mbl.is í dag en um hún var skoðuð nærri 50 þúsund sinnum af rúmlega 20 þúsund notendum. Rösklega 11 þúsund reyndu ítrekað að endurhlaða myndskeiðið eftir að villumelding kom upp til að freista þess að sjá meira af því. Þá hefur nokkur fjöldi fólks sent inn tölvupósta vegna myndbandsins þó margir hafi greinilega áttað sig á eðli þess.
Sem dæmi um sendingar frá lesendum má nefna:
„Eina af viti á mbl.is og það virkar ekki.“
„Gat ekki séð frétt „Með buxurnar á hælunum“ Reyndi að endurhlaða. Aldrei komið fyrir áður.“
„ÞAÐ VIRKAR EKKI MYNDBANDIÐ heheh veit að þetta er apríl gabb eða held það en langaði að sjá þetta heheh :)“
„Ætli sé einhver blygðunarsemisía á tölvunni minni! Hún kemst aldrei nema rétt inn á þetta myndband, þá kemur hin móralska hönd!“
Fjölmiðlamaður í Noregi frá norsku sjónvarpsstöðinni tv2 hafði samband við mbl.is og vildi fá leyfi til að birta myndbandið og óskaði eftir því að fá það óstytt. Sá hafði ekki gert sér grein fyrir því að um væri að ræða 1. aprílgabb.
Í tölvuskeyti frá hinum norska kollega stóð: „Is it more video available, or does it stop when the police officer turns around? If it is, please send it. If it’s not, get a new camera person.“ eða „Er til meira af þessu myndbandi, eða stöðvast það þegar lögreglumaðurinn snýr sér við? Ef það er til vinsamlegast sendið það. Ef ekki - ættuð þið að fá ykkur annan tökumann.“ Þegar ljóst var að um aprílgabb væri að ræða og myndbandið ekki lengra var áhuginn ekki lengur til staðar.
Fjölmiðlarnir birtu margar skemmtilegar og ósannar fréttir í tilefni dagsins. Vísir.is sagði frá því að Tom Cruise væri væntanlegur til landsins í dag til að verða viðstaddur heimsfrumsýningu á kvikmyndinni Oblivion í Smárabíói í kvöld.
Á dv.is voru Íslendingar hvattir til að slökkva á tölvum sínum og nettengingum eftir að hakkarahópurinn Anonymous tilkynnti á Twitter að Ísland væri nýjasta skotmark samtakanna. Þá sagði vefurinn einnig frá því að leikarinn Charlie Sheen hefði samþykkt að mæta á ritstjórnarskrifstofur blaðsins og svara spurningum lesenda í beinni línu. Gæfist fólki þar með einstakt tækifæri til að spyrja leikarann spjörunum úr. Það var þó heldur óheppilegt að aðrir miðlar birtu (sannar) fregnir af því að leikarinn væri haldinn af landi brott.
Þá greindi RÚV frá því að rússneska draugaskipið Lyubov Orlava væri rétt suður af Surtsey og væri óttast að rottur úr skipinu kæmust í land og ógnuðu friðlandinu í eynni.
Í kvöldfréttum RÚV var svo frétt um að Íslendingum yrði meinaður aðgangur að helstu ferðamannastöðum landsins yfir hásumarið. Rætt var við forstjóra Umhverfisstofnunar og formann Landverndar og síðan við framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands sem höfðu boðað mótmæli á Austurvelli kl. 20 í kvöld. Þeir sem þangað fóru hlupu hinsvegar 1. apríl.