„Þetta er frá okkar bæjardyrum séð spurningin um það hvort að eigi að taka heildarhagsmuni íslenskra heimila fram yfir sérhagsmuni mjög fárra,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu [SVÞ], sem viðbrögð við yfirlýsingu frá Félagi kjúklingabænda fyrr í dag þar sem félagið sakar SVÞ um villandi samanburð.
„Staðreyndin er sú að tveir framleiðendur standa fyrir 95% af alifuglaframleiðslu hér á landi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 95 stöðugildi í þessari grein. Það hefur verið margsýnt fram á það bæði í frægri skýrslu matvælanefndar frá 2006, sem að mikið var gert úr á sínum tíma, og í nýrri skýrslu hagfræðistofnunar að það að létta af þessum innflutningshömlum á búvörum, til dæmis hvíta kjötinu, er einfaldasta og auðveldasta leiðin til þess að létta hag heimilanna,“ sagði Andrés.
Hann segir bara spurningu um hvort menn hafi kjark í sér til að taka heildarhagsmuni íslenskra heimila fram yfir „mjög þrönga sérhagsmuni“ í þessu tilfelli.
„Þessi margþvælda tugga um matvælaöryggi á engan vegin við þegar kemur að kjúklingakjöti. Það kemur ítrekað upp að það þurfi að innkalla þessa vöru vegna bæði salmonellu og kampýlóbaktersýkingar. Það er ekki með nokkru móti hægt að tefla fram trúverðugum rökum fyrir því að það sé ástæða út frá matvælaöryggi til þess að vernda þessa grein,“ segir Andrés.
Spurður nánar út í skilgreiningu SVÞ á kjúklingaframleiðslu sem iðnaði en ekki landbúnaði segir hann: „Við teljum þetta fjöldaframleiðslu og iðnaðarframleiðslu. Þetta er að mestu leyti innflutt fóður. Við segjum að þetta sé að mestu leyti innflutt vinnuafl sem vinnur við þessar greinar. Það er ekki með nokkru móti hægt að leggja þessa starfssemi að jöfnu við þennan hefðbundna gamla íslenska landbúnað.“
Andrés segir að staðan sé sú að hvíta kjötið standi undir um helming kjötneyslu Íslendinga nú. „Þar að leiðandi gefst ekki betra tækifæri til þess að rétta hag heimilanna í landinu að eyða út þessum þröngu sérhagsmunum, bæði í svínum og kjúklingi. Gefa frjálsan innflutning á þessari vöru og þá er hægt að lækka [vöruverð] eins og við höfum sýnt fram á um 30-40%. Gjörbreyta innkaupakörfu heimilanna að okkar mati. Þetta er bara spurning um það hvort pólitíkin hafi kjark í sér til að stíga fram og til verndar heildarhagsmunum þessara 115-120 þúsund heimila sem eru í landinu gegn þessum mjög svo þröngu sérhagsmunum sem þarna er um að ræða,“ segir Andrés.