Ferðaskrifstofur sem skipuleggja hvata- og ráðstefnuferðir til Íslands hafa þurft að vísa hópum frá vegna þess að ekki er hægt að útvega gistingu fyrir fólkið hér á landi.
„Þetta er í fyrsta sinn sem við finnum verulega fyrir skorti á hótelrými,“ segir Kristín Sif Sigurðardóttir,“ framkvæmdastjóri Atlantik. Iceland Travel hefur einnig þurft að vísa stöku hópum frá.
Kristín Sif bendir á að hvatahópar komi einkum utan háannatíma, t.d. í maí og september. Fái þeir ekki gistingu á þeim tíma sem óskað sé eftir sé oft hægt að semja um að hópar komi á öðrum tímum og landið verði því ekki alveg af viðskiptunum. „Þetta er lúxusvandamál sem mun vonandi halda áfram,“ segir hún.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir að fleira sé komið að þolmörkum; farið sé að bera á skorti á rútum og leiðsögumönnum yfir háannatímann. Gert er ráð fyrir álíka mörgum farþegum til Reykjavíkur með skemmtiferðaskipum og í fyrra þegar þangað komu 92.000 manns.