Lið Háskólans í Reykjavík varð í 16. sæti af 98 liðum í alþjóðlegri hakkarakeppni sem haldin var á föstudag. Keppnin var haldin af Kaliforníuháskóla í Santa Barbara og lið frá háskólum úr öllum heimshornum tóku þátt. Er þetta í 11. skipti sem keppnin, iCTF, er haldin og er hún sú stærsta sinnar tegundar í heiminum.
Öllum keppnisliðum var úthlutað aðgangi að tölvu í Kaliforníu og var markmið keppenda að nýta sér veikleika í netþjónustum annarra liða til að brjótast inn í þau, en einnig að verja sig gegn árásum. Hægt var að fylgjast með netumferðinni og álykta út frá henni hvort einhver væri að brjótast inn í tölvu liðsins.
Trausti Sæmundsson, meistaranemi í tölvunarfræði við HR, var einn af 13 keppendum í liðinu. „Liðið okkar kom saman í rannsóknarstofu í háskólabyggingunni. Keppnin stóð yfir í 8 klukkustundir og lauk á miðnætti, það var svaka spenna í loftinu allan tímann, en um tíma vorum við að keppa um efstu sætin. Margir skólar leggja mjög mikinn metnað í þessa keppni svo við getum ekki verið annað en ánægðir með árangurinn.“
Þetta er í fyrsta skipti sem lið frá HR tekur þátt í alþjóðlegri keppni af þessum toga og stefnir liðið á þátttöku í næstu iCTF keppni sem haldin verður í desember. Ýmir Vigfússon, lektor í tölvunarfræði og leiðbeinandi liðsins, segir keppnina þjálfa nemendur í að verjast árásum tölvuþrjóta.
„Ef þú veist hvað getur farið úrskeiðis í netheimum ertu betur í stakk búin/n til að bregðast við ókomnum árásum og að smíða öruggari forrit. Keppnin er því ekki aðeins skemmtileg og spennandi heldur ennfremur gagnleg og uppbyggjandi.“
Lið HR: Axel Gauti Guðmundsson, Bjarki Ágúst Guðmundsson, Bjarni Benediktsson, Gunnar Jörgen Viggóson, Heiðar Þórðarson, Helgi Kristvin Sigurbjarnarson, Ingólfur Eðvarðsson, Ólafur Páll Geirsson, Sveinn Fannar Kristjánsson, Theodór Gíslason (leiðbeinandi), Trausti Sæmundsson, Vignir Örn Guðmundsson, Ýmir Vigfússon (leiðbeinandi).