Brýnt að bæta kunnáttu vélsleðamanna

„Því miður hafa verið of mörg vélsleðaslys undanfarið, jafnt hjá reyndum sem óreyndum ökumönnum. Liður í því að reyna að fækka þeim er fræðsla og forvarnir,“ segir Gísli Páll Hannesson, yfirleiðbeinandi vélsleða í Björgunarskóla Landsbjargar.

Námskeið fyrir vélsleðamenn á vegum Landssambands íslenskra vélsleðamanna (LÍV) og Björgunarskólans hefst á Akureyri í dag og lýkur á mánudaginn.

„Það er brýnt að bæta kunnáttu vélsleðamanna í akstri, það gerum við með því að halda reglulega námskeið,“ segir Freyr Aðalgeirsson, formaður Landssambands íslenskra vélsleðamanna.

Bret Rasmussen, einn af betri vélsleðaökumönnum heims, var fenginn til landsins til að kenna Íslendingum að beita sleðanum rétt. Hann mun sýna tilteknar aksturstækniæfingar. „Það er nauðsynlegt að fá kennslu svo við getum notið útivistarinnar og keyrt á betri og öruggari hátt,“ segir Freyr.

Um 600 manns eru skráðir í LÍV en nokkur fjölgun hefur orðið undanfarið, einkum meðal ungra manna. Mælst er til þess að félagsmenn sæki námskeið og bæti við sig þekkingu. Freyr bendir á að í þessu sporti, eins og öðru, sé það æfingin og reynslan sem skapi meistarann. Hann ítrekar þó að mikilvægt sé að fá kennslu í ákveðnum öryggisatriðum og að fólk sé undir það búið, hvaða aðstæðum það mætir uppi á fjöllum. Þá hafi vélsleðarnir breyst mikið undanfarið og því sé nauðsynlegt að vita hvernig þeir virka, segir Freyr. „Ég hef mestar áhyggur af þeim sem tengjast ekki samtökunum og þar af leiðandi eru þeir ekki eins líklegir til að bæta við sig þekkingu,“ segir Gísli Páll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert