Samtökum aldraðra hefur gengið erfiðlega að fá lóðir í Reykjavík síðustu ár að sögn Erlings Garðars Jónassonar, formanns samtakanna. Hann segir að félagið hafi fengið lóðina Sléttuveg 29-31 afhenta í ársbyrjun 2009 og hófust framkvæmdir þá þegar.
„Síðan höfum við ekki fengið svör við óskum um lóðir sem við höfum sótt um,“ segir Erling í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Hann sagði að um 4-5 lóðir væri að ræða. Samtökin eru 40 ára og hafa byggt 443 íbúðir, þar af 415 í Reykjavík. Nú er í byggingu 28 íbúða hús í Kópavogi.
Brýnt er að bæta úr skorti á þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara í Reykjavík, að sögn Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu í borgarstjórn í gær um að borgarstjórnin samþykkti aðgerðir til þess að „auka lóðaframboð fyrir þjónustuíbúðir í þágu eldri borgara í Reykjavík“.