Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins samþykktu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gærkvöldi ályktun þar sem lýst er yfir vonbrigðum yfir því að ekki hafi verið gætt jafnræðis hvað varðar Helguvík og Bakka.
„Það eru íbúum Reykjanesbæjar gríðarleg vonbrigði að ekki skuli hafa verið gætt jafnræðis á milli stuðnings við Helguvík og Bakka eins og lofað hafði verið af forystumönnum Samfylkingarinnar, annars ríkisstjórnarflokksins, þegar frumvarp um Bakka var lagt fram fullskapað á þingi.
Við það tækifæri var fullyrt að slíkt frumvarp hafi einnig verið í undirbúningi í um Helguvík í heilt ár. Með sérstakri bókun á síðasta bæjarstjórnarfundi sögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar vinnubrögð um Helguvík dæmi um "vandaðan undirbúning og þrotlausa vinnu þingmanna Samfylkingarinnar" Þeir vísuðu einnig í skýrar yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar um að jafnræði skuli gilda á milli iðnaðarsvæða og landsvæða og sögðu "fjármögnun frá ríkinu til hafnaruppbyggingar loks í höfn"!.
Í ljós hefur komið að ekkert frumvarp var í smíðum hjá ríkisstjórninni sem snéri að Helguvík. Þetta verða forsvarsmenn Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar að skýra fyrir bæjarbúum.
Miðað við frumvarpið um Bakka þýddi þetta fjárstyrki til Helguvíkur er varða hafnarframkvæmdir, lóðagerð, vegagerð og þjálfunarstyrki fyrir a fjórða milljarð króna.
Þrátt fyrir yfirlýsingar um „jafnræði“ var ekkert frumvarp um Helguvík lagt fram af ríkisstjórninni og síðar hefur komið í ljós að ekki er samstaða um verkefni í Helguvík innan ríkisstjórnarinnar.
Tilraunir núverandi fjármálaráðherra til að hreyfa við málinu á síðustu dögum þingsins voru virðingarverðar en höfðu greinilega engan hljómgrunn hjá þessari ríkisstjórn,“segir í ályktun sem átta bæjarfulltrúar skrifuðu undir.