„Reykjanesið er bæði fallegt og fjölbreytilegt, það gleymist stundum að það er ekki bara hraunflákar eins og það sem maður sér út um bílrúðuna á Reykjanesbrautinni,“ segir Ellert Grétarsson ljósmyndari sem nýlega hlaut heimsathygli fyrir mynd sína af norðurljósum. „Myndina tók ég hérna á Reykjanesinu, ég tek flestar mínar myndir á því svæði.“
Ellert hefur tekið fjölda mynda og myndskeiða á Reykjanesskaganum. Hluta af þessu myndefni setti hann saman í myndskeið á vefnum youtube.com undir heitinu „Reykjanesskagi – Ruslatunna Rammaáætlunar“. Ellert segir að nafnið sé vísun í þegar Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur stóð við Grænavatn í Krýsuvík og blöskraði svo umgengnin að hann sagði vatnið notað eins og ruslatunnu.
Í myndskeiðinu deilir Ellert hart á að samkvæmt rammaáætlun um orkunýtingu hafi meira og minna allir nýtingarkostir á svæðinu verið settir í framkvæmdaflokk eða biðflokk, og einungis þrír af 19 í verndunarflokk.
„Svo virðist sem Reykjanesið hafi verið notað sem pólitísk skiptimynt og gefið eftir að virkja það meira og minna allt en vernda þá frekar önnur svæði á hálendinu,“ segir Ellert.
Ellert segir miður hvað fáir geri sér grein fyrir þeirri náttúrufegurð sem Reykjanesskaginn búi yfir.
„Meðal fallegra útivistarsvæða eru Krýsuvík, sem er fólkvangur og eitt vinsælasta útivistarsvæðið í nágrenni við þéttbýlasta svæði landsins. Þarna er líka Trölladyngja og Eldvörp, tíu kílómetra löng gígaröð. Það þarf að fara alla leið upp í Lakagíga til að finna sambærilegar jarðmyndanir og Eldvörpin. Og þetta er nánast í bæjarhlaðinu. En þarna stendur því miður til að virkja. Ég er búinn að ljósmynda skagann í bak og fyrir undanfarin sex ár og fólk er hissa að sjá hvað náttúran hérna er falleg. Hér er til dæmis eini staðurinn í heiminum þar sem fyrirbærið úthafshryggur gengur á land með sýnilegum ummerkjum og þær jarðmyndanir sem fylgja því bjóða upp á mikil tækifæri í ferðaþjónustu, meira að segja í næsta nágrenni við alþjóðaflugvöll. Svo má ekki gleyma því að Reykjanesið er inngangurinn að landinu okkar og það fyrsta sem fólk sér á Íslandi. Við verðum að fara vel með það,“ segir Ellert.