Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir Aðalstein Baldursson, formann Framsýnar misskila sig og taka orð hans úr samhengi en Aðalsteinn hefur farið fram á afsökunarbeiðni frá Andrési.
Krefur framkvæmdastjóra SVÞ um afsökunarbeiðni
„Aðalsteinn kýs að misskilja og taka úr samhengi orð mín í fréttinni. Í þeim fólst ekkert vanþakklæti í garð þess innflutta vinnuafls sem hingað kemur til að vinna. Því eins og Aðalsteinn bendir réttilega á reiðir verslunin sig m.a. á starfskrafta þess.
Það sem ég var að benda á, er að það er ekkert sérstakt við hvíta kjötið, svínakjöt og kjúklinga, sem framleitt er fyrir íslenskan markað, að stóru leyti af tveimur stórum iðnfyrirtækjum. Þarna er um að ræða nokkra tugi starfa sem, eins og Aðalsteinn bendir á, er erfitt að fá Íslendinga til að sinna. Fóðrið sem dýrin fá er hið sama og í Danmörku, Hollandi eða Frakklandi.
Það eru því engin skynsamleg rök fyrir því að íslenskir neytendur eigi að greiða mun hærra verð fyrir þessar vörur. Þetta er einföld spurning um almannahagsmuni á kostnað sérhagsmuna örfárra fyrirtækja.
Eins og staðan er í dag verður með öllum ráðum að auka kaupmátt íslenskra heimila og þegar neysla á hvítu kjöti er um helmingur þess kjöts sem heimilin neyta þá er ekki hægt að horfa fram á þá miklu hagsmuni - þá gríðarlegu kjarabót sem verið er að fórna fyrir sérhagsmuni fárra. Svarið er einfalt. Að sjálfsögðu á að afnema tolla og höft á þessum vörum. Taka á heildarhagsmuni fram yfir sérhagsmuni.