Vill að framkvæmdastjóri SVÞ biðjist afsökunar

Morgunblaðið/Brynjar Gauti

Formaður Framsýnar- stéttarfélags telur eðlilegt að framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu biðjist opinberlega afsökunar á þeim ummælum sínum að gefa ætti innflutning á kjúklingum frjálsan þar sem greinin byggði m.a. á innfluttu vinnuafli.

Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær var viðtal við Andrés Magnússon framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ). Hann var spurður út í framleiðslu á kjúklingum á Íslandi. Meðal þess sem hann sagði var að gefa ætti innflutning á þessari vöru frjálsa þar sem hún byggði m.a. á innfluttu vinnuafli.

Formaður Framsýnar- stéttarfélags, Aðalsteinn Á. Baldursson, undrast þessi ummæli sem byggja að hans mati á alvarlegum fordómum í garð þessa fólks. „Fyrirtæki á Íslandi hafi þurft að treysta á innflutt vinnuafl til að geta haldið úti starfsemi þar sem ekki hafi fengist vinnuafl á Íslandi. Hvað með fiskvinnsluna, byggingariðnaðinn, ferðaþjónustuna og kjötvinnsluna,“ segir í yfirlýsingu frá Aðalsteini.

„Á að leggja þessar atvinnugreinar niður þar sem þær byggja töluvert á innfluttu vinnuafli spyr formaður Framsýnar. Þá sé jafnframt athyglisvert að þessi ummæli komi úr þessari átt þar sem verslun og þjónusta hafi einnig þurft að treysta á innflutt vinnuafl,“ segir í yfirlýsingunni.

 Formaður Framsýnar telur eðlilegt að framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu biðjist opinberlega afsökunar á þessum ummælum sem séu honum ekki sæmandi er varðar innflutt vinnuafl.

Frétt mbl.is: „Mest innflutt fóður og vinnuafl“

Frétt mbl.is: Saka SVÞ um villandi samanburð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert