„Þetta er að róast verulega; byrjaði í gærkvöldi og er í rauninni dottið mjög mikið niður,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðvísindamaður hjá Veðurstofu Íslands, um jarðskjálftahrinuna við Grímsey. Um 150 jarðskjálftar mældust á svæðinu í nótt, flestir undir þremur stigum að stærð. Íbúar í Grímsey halda ró sinni en þykir þetta ónotalegt.
Benedikt segir í samtali við mbl.is að stærð skjálftanna sé að minnka og þá hafi dregið verulega úr fjölda þeirra. Mun öflugri hrina varð í fyrrinótt en meginskjálftinn, sem varð um eittleytið aðfararnótt 2. apríl, mældist vera 5,5 stig.
Í kjölfarið lýsti ríkislögreglustjóri, að höfðu samráði við vísindamenn, lögreglustjórana á Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík, yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar. Óvissustigið er enn í gildi.
Aðspurður segir Benedikt að miðað við núverandi mælingar þá sé útlit fyrir að skjálftahrinan sé að deyja út. „Það eru miklu færri skjálftar sem fara yfir þrjá núna í nótt og tíðni skjálfta er að minnka mjög mikið,“ segir hann. Menn verði hins vegar að bíða og sjá hvort hrinan sé í raun og vera að renna sitt skeið eður ei. Ekki sé hægt að útiloka að ný hrina fari af stað eftir stutt hlé.
Hann segir að um það bil 150 jarðskjálftar hafi mælst í nótt en að þeir hafi verið margfalt fleiri frá því á mánudag.
Sigurður Bjarnason, íbúi í Grímsey, segist í samtali við mbl.is ekki hafa fundið fyrir jarðhræringunum í eynni í nótt en hann fann vel fyrir jarðskjálftunum í fyrrinótt. Þá hafi verið mikil læti og titringur rétt fyrir og eftir miðnætti.
Aðspurður segir Sigurður að Grímseyingar haldi almennt ró sinni en þetta sé vissulega óþægilegt.
„Ég er skíthræddur við þetta en við höldum alveg ró okkar svona þannig að við erum ekkert að farast úr stressi. Almennt þykir fólki þetta hundleiðinlegt og það eru margir sem finnst þetta vera mjög ónotalegt,“ segir Sigurður sem hefur verið búsettur í Grímsey alla sína ævi, eða í tæp 60 ár.
Þá segir hann að hrinan nú sé í takt við það sem verið hefur á svæðinu á undanförnum árum. „Þessi er svosem ekkert öðruvísi heldur en aðrar hrinur sem hafa komið,“ segir hann. Sigurður bætir við að hann viti ekki til þess að nokkurt eignatjón hafi orðið af völdum skjálftanna.
„Þetta mjög ónotalegt og er algjör óþarfi. En ég hef nú samt meiri áhyggjur af Kóreuskaganum,“ segir Sigurður að lokum.
Upplýsingar um jarðskjálfta á vef Veðurstofu Íslands.