Birgitta Jónsdóttir, oddviti Pírata í Suðvesturkjördæmi, lenti í New York síðla kvölds í gær. Í tilkynningu frá Pírötum segir, að Birgitta hafi sent frá sér smáskilaboð til Íslands eftir að hún yfirgaf John F. Kennedy flugvöllinn, en í þeim stóð: „Ekkert vesen:)“.
Fram kemur í tilkynningunni, að Birgitta muni dvelja í Bandaríkjunum fram yfir helgi, en hún tekur þátt í viðburði til stuðnings Bradley Manning sem hefur verið í haldi síðan í maí 2010 fyrir að leka skjölum til Wikileaks.
„Gögnin urðu meðal annars til þess að Wikileaks birti myndskeið úr Apache þyrlu Bandaríkjamanna, þar sem skotið er á fréttamenn og óvopnaða borgara. Birgitta og fleiri stuðningsmenn Wikileaks hafa verið rannsakaðir af Bandarískum yfirvöldum fyrir þátttöku sína í starfsemi samtakanna,“ segir í tilkynningunni.