Ferðamenn voru í stórhættu í Reynisfjöru skammt vestan við Vík í Mýrdal um páskana eins og sést á myndskeiði sem náðist af öldu sem gengur yfir nokkra ferðamenn sem höfðu hætt sér of nærri sjávarmálinu. Fimm ár eru síðan alda hreif bandaríska ferðakonu með sér á haf út með þeim afleiðingum að hún drukknaði.
Myndskeiðið var tekið eftir hádegi á föstudaginn langa en öldur geta á örskotsstundu náð mun lengra upp í fjöruna en þær hafa áður gert, svo munað getur tugum metra. Jafnvel hefur verið talað um að loka fjörunni vegna þeirrar hættu sem þar getur skapast.
Kristinn Kjartansson, sem tók myndskeiðið, á sumarbústað skammt frá fjörunni og fylgdist með ferðum erlendra ferðamanna í fjörunni um helgina. Hann segir ekki hægt að kvarta yfir því að merkingar vanti, frekar sé um að kenna þekkingarleysi á þeim kröftum sem þarna eru að verki. „Ég gerði tilraun á laugardagsmorgninum að benda erlendri fjölskyldu sem komin var hættulega nærri sjónum á að færa sig ofar í fjöruna, með litlum undirtektum, og jafnvel hreytingi frá fjölskylduföðurnum. Fjölskyldan var svo komin upp á kampinn þegar næsta ólag reið yfir og færði á kaf staðinn sem þau stóðu á.“
Kristinn segir að straumur ferðamanna um svæðið hafi verið þungur yfir páskana og að hver rútan hafi komið á fætur annarri með rútufylli af ferðamönnum og bætir því við að iðulega blotni fólk í fæturna í fjörunni. Miðað við þá hættu sem þarna geti orðið segir hann jafnframt að mikil bót væri að því að bæta símasamband í fjörunni sem geti verið stopult.
„Stundum er ófært í þessa hella“