Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að miðað við almenna þróun kaupmáttar sé eðlilegt að færri heimili séu í greiðsluvanda, líkt og fram kemur í nýrri lífskjarakönnun Hagstofu Íslands fyrir árið 2012. Þrátt fyrir það glími tekjulægsti fimmtungurinn við mikinn vanda þar sem hann fái ekki aðstoð.
„Þeir tekjulægstu, sem ekkert fá út úr einhverjum skuldalækkunaraðgerðum vegna þess að þeir máttu ekki skulda - þeim var bannað að skulda, þeir eru eru ekki að fá neitt liðsinni,“ segir í Gylfi í samtali við mbl.is.
Það verði að rjúfa þann vítahring sem fólkið sé í. „Það verður að gefa þeim færi á því að búa við meira öryggi í húsnæðismálum og vera ekki með mikið meira en fimmtung tekna sinna til húsnæðismála eins og við hin. Þá pluma þau sig ágætlega.“
Fram kemur í lífskjararannsókn Hagstofunnar, að heimilum í fjárhagsvanda hafi fækkað á milli milli ára í fyrsta sinn frá árinu 2008.
Gylfi segir að það komi ekki á óvart að kaupmáttur fólks sé að vaxa. Staðan hafi lagast aðeins í gegnum þær launahækkanir sem hafi náðst í gegn.
Gylfi segir að þrátt fyrir að meðaltalið sé að skána þá eigi það ekki við tekjulægsta hópinn í samfélaginu. Gylfi bendir á að þetta sé hópurinn sem hafi ekki fengið skulda þar sem hann hafi haft of lágar tekjur til að fá lán. Þessi hópur sé á leigumarkaðinum og staðreyndin sé sú að leiguverð hafi hækkað gríðarlega mikið. Bæði vegna þess að fáir vilji eða geti keypt og þá sé aukin eftirspurn eftir leiguíbúðum og minna framboð.
Gylfi segir að það sjáist í könnunum Hagstofunnar að þeim fari fjölgandi í tekjulægsta fimmtungnum sem geti ekki staðið í skilum með sín mál. Nú ráði um 40% hópsins ekki við sínar skuldir, sem sé að mestu leyti leiga.
„Besta hjálpin fyrir skuldug heimili er aukinn kaupmáttur. Greiðslubyrði lána lækkar mjög hratt með hækkandi kaupmætti,“ segir Gylfi. Aukin atvinna og auknar tekjur séu einu leiðirnar til að leysa greiðsluvanda heimilanna með varanlegum hætti.