Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og fjármálaráðherra, segist undrast vinnubrögð bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem í fyrrakvöld sendi frá sér ályktun um að ekki hefði verið staðið við loforð um að gætt yrði jafnræðis á milli Helguvíkur og Bakka.
Að sögn Katrínar sendi hún bæjarstjórninni drög að samkomulagi, sambærilegu því sem gert var um Bakka, um Helguvík í síðustu viku. Þá segist hún ekki vita hvað vaki þarna fyrir mönnum. „Það sem mér dettur helst í hug er að menn séu þarna ekki að hugsa um hag sveitarfélagsins heldur um hag síns flokks,“ segir Katrín og bætir við: „Ef menn óttast að þessu verði ekki fylgt eftir verða einhverjir aðrir flokkar en minn að svara fyrir það, vegna þess að það er algjörlega ljóst að með svona samkomulagi við sveitarfélagið værum við að skuldbinda okkur til þess að láta það verða að raunveruleika og það væri mjög erfitt fyrir ný stjórnvöld að horfa framhjá því.“
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, enn eina viljayfirlýsinguna ekki duga til enda hafi fyrri yfirlýsingar verið sviknar.