Til skoðunar hefur verið í forsætisráðuneytinu að stofna sérstakt hagráð óháðra sérfræðinga til að leggja mat á efnahagsáætlanir. Jafnframt að setja á fót sjálfstæða stofnun í stað Þjóðhagsstofnunar sem lögð var niður fyrir 11 árum síðan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu í dag.
Þar segir að verkefni stofnunarinnar yrði að vinna að efnahagsspám og samhæfingu hagstjórnar, en Hagstofa Íslands sinnir því hlutverki nú. Þá segir að tillögu um að setja á fót slíka sjálfstæða stofnun sé að finna í skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
„Með fækkun ráðuneyta og breyttum verkefnum þeirra er stefnumörkun og stjórnsýsla efnahagsmála nú í höndum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Forsætisráðherra fól því Katrínu Júlíusdóttur, fjármála-og efnahagsráðherra, að leggja mat á þessar hugmyndir. Hún hefur nú ákveðið að skipa starfshóp sem ætlað er að semja tillögur um þjóðhagsspár og greiningu á hagstærðum sem og að kanna kosti þess að setja á fót sjálfstæða Þjóðhagsstofnun sem hafi slík verkefni með höndum,“ segir í fréttatilkynningunni.