Lögreglan var á þremur lögreglubílum og þremur bifhjólum í Garðabæ í kvöld að sekta gesti í Ásgarði sem voru þar ýmist á körfuboltaleik Stjörnunnar og Snæfells eða á fimleikamóti vegna stöðubrota.
Vegna skorts á bílastæðum lögðu gestir gjarnan upp á graseyjar eða annars staðar þar sem þeir töldu sig koma því við.
Lögreglan fór á staðinn og sektaði ökumenn í gríð og erg og mega þeir nú búast við sekt upp á 5.000 krónur vegna stöðubrotsins.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur verið nóg að gera hjá lögreglumönnunum við sektarskriftirnar, en ekki er vitað hversu margir lögreglumenn voru á staðnum, hvort tveir hafi verið í hverjum bíl eða einn. Þeir hafa í það minnsta verið sex en hugsanlega níu.