„Við erum alltaf að fást við þurrð á ákveðnum lyfjum. Eftir að fákeppni varð á lyfjamarkaðnum hér á landi þegar framleiðsla og dreifing færðust á hendur færri aðila, þá er þetta orðið algengara. Þetta er það sem við þurfum að greiða fyrir lægra lyfjaverð,“ segir Sigurbjörn Sveinsson, heilsugæslulæknir aðspurður hvort skortur á lyfjum hér á landi sé viðvarandi. Hann segir í flestum tilfellum hægt að gefa tiltekin samheitalyf.
Hann segir vandann vera í raun tvenns konar. Stundum komi upp þurrð á ákveðnum lyfjum eins og sýkla- og verkjalyfjum. Í því samhengi nefnir hann nýlegt dæmi um skort á nauðsynlegri og algengri mixtúru fyrir börn en hún verður aftur fáanleg frá öðrum framleiðanda. Öðru máli gegni um skort á lyfjum við krónískum sjúkdómum.
„Sífelld skipti milli lyfja valda óöryggi hjá sjúklingum og jafnvel vitleysu í lyfjagjöf, slíkt kemur fyrir,“ segir Sigurbjörn og bendir á að þetta megi rekja til greiðsluþátttöku ríkisins í ákveðnum lyfjum og lyfjamarkaðarins hins vegar. „Rokk á milli lyfja er vegna þess að ríkið velur að greiða niður það lyf sem er hagstæðara. Þá standa sjúklingar frammi fyrir því að þurfa að taka inn annað lyf. Oft detta lyf út af þeim lista sem ríkið greiðir niður,“ segir Sigurbjörn og bendir á að umræddur vandi sé runninn af sömu rót. t