Niðurstaða eftir ítarlega vinnu

Orkuveitan hefur ákveðið að ganga til samninga um sölu á …
Orkuveitan hefur ákveðið að ganga til samninga um sölu á Hrafnabjargavirkjun hf. mbl.is/Hjörtur

„Við erum búin að láta greina þetta ansi vel og það eru ýmsir kostir í stöðunni. Gríðarleg óvissa er í kringum Hrafnabjargavirkjun, hún er í biðflokki og við erum ekki með rannsóknarleyfi,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. 

Á fundi sínum á föstudag heimilaði stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, forstjóra að ganga til samninga við meðeigendur OR í Hrafnabjargavirkjun hf. með það að markmiði að þeir eignist hlut Orkuveitunnar og að hún gangi þar með endanlega út úr félaginu. Frá þessu var sagt í frétt á mbl.is í kvöld. Kjartan Magnússon, borgarfulltrú Sjálfstæðisflokksins gerir alvarlegar athugasemdir við söluna og fyrirhugaða framkvæmd hennar. Þá segir hann óráðlegt að fækka orkuöflunarkostum fyrirtækisins til framtíðar.

Bjarni ítrekar að rannsóknarleyfi hafi ekki verið úthlutað. Þegar og ef af því verður segir Bjarni að taki rannsóknir sem kosti þó nokkuð fé sem Orkuveitan eigi ekki of mikið af. „Síðan er náttúrulega mikil óvissa um hvort að virkjunarmöguleikinn færist úr biðflokk í nýtingarflokk eða í verndarflokk. Það vitum við ekkert um. Þetta er niðurstaða stjórnarinnar eftir að hafa skoðað málið og í sjálfu sér ekkert meira um það að segja.“

Í bókun Kjartans Magnússonar á stjórnarfundi á föstudaginn eru gerðar athugasemdir við fyrirhuguð vinnubrögð við sölu á hinum ráðandi hlut í Hrafnabjargavirkjun hf. Þar segir að eðlilegt sé að söluverðið verði hámarkað í gagnsæju söluferli í stað þess að gengið sé beint til samninga við meðeigendur.

Bjarni ítrekar að fyrirtækið hafi ekki fengið rannsóknarleyfi, í því liggi engin verðmæti eins og er nema hlutafé. „Til þess að láta reyna á hvort að rannsóknarleyfið fæst þá þyrfti OR að vilja halda áfram með verkefnið en stjórnin telur það ekki rétt. Þar með vitum við ekki hvort einhver verðmæti felast í þessu og það tekur reyndar mörg ár að komast að því hvort um sé að ræða virkjanakost sem færist úr biðflokk eða verndarflokk. Annaðhvort þarf þá OR að ganga áfram í þessu verkefni til einhverra ára og láta reyna á hvort verðmæti felast í félaginu eða selja núna,“ segir Bjarni.

Sjá einnig: Vilja selja Hrafnabjargavirkjun hf.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert