Útihlaup verða sífellt vinsælli líkamsrækt meðal landsmanna og sífellt fjölgar í hópi þeirra sem hjóla til og frá vinnu. Þegar við bætist sístækkandi rafmagnsvespufloti ungmenna, fólk með barnavagna, hunda- og göngufólk, þá er umferðin á göngustígum víða orðin býsna mikil. Landssamtök hjólreiðamanna telja að sérstakar reinar fyrir hjólreiðafólk yrðu mjög til bóta.
Morten Lange situr í stjórn Landssamtaka hjólreiðamanna. Hann segist vissulega heyra að það vanti upp á að hjólreiðamenn taki tillit til gangandi fólks. Til dæmis sé kvartað yfir því að hjólreiðamenn geri ekki vart við sig með bjöllu.
„Samkvæmt umferðarlögum er skylda að vera með bjöllur, en vandamálið er að þær eru sjaldan seldar með reiðhjólum. Þess fyrir utan eru þær misjafnar að gæðum og skemmast auðveldlega. En auðvitað gæti hjólreiðafólk látið vita af sér með því að bjóða góðan dag hárri og glaðri raustu,“ segir Morten.
„Annars eru svo margir gangandi vegfarendur með tónlist eða eitthvað annað í eyrunum og sumir heyra ekki neitt. Við hjá Landssamtökum hjólreiðamanna höfum lengi talað fyrir því að þar sem umferðin á göngustígum er mikil mætti aðgreina umferð hjólandi og gangandi.“
Ítrekað hefur verið bent á þá slysahættu sem skapast þegar hjólað er á talsverðum hraða á stígum þar sem gangandi vegfarendur eru á ferli. Morten segir að fólk sé að hjóla á allt að 40-50 km hraða, en ómögulegt sé að segja hvort það sé á göngustígum „Hjólandi þurfa að vera meðvitaðir um það að þeir gangandi hafa forgang.“
Morten segir samtökin að öllu jöfnu ekki hvetja til þess að fólk hjóli á stofnbrautum þar sem mikil umferð er, heldur sé mælt með götum þar sem minni umferð er. „Staðurinn sem er ætlaður hjólreiðamönnum eru göturnar, þeir fá að nota gangstéttir og mjóa gangstíga á undanþágu,“ segir Morten.
Hann segir að bílstjórar taki miklu meira tillit til hjólreiðafólks nú, en fyrir nokkrum misserum og segir það án efa vera vegna þess að hjólreiðafólki hafi fjölgað mikið á stuttum tíma. „Upplifun margra er að samvinna við bílstjóra gangi betur, þeir taka meiri tillit og umbera þá hjólreiðamenn sem eru á götunum betur en áður. Umferðarmenningin er að breytast.“
Morten segir þó að affærasælast væri ef gerðir yrðu hjólastígar líkt og tíðkast t.d. í Danmörku. „Það myndi auka öryggistilfinningu hjólreiðafólks og það yrði meiri hluti af umferðinni. En þetta myndi ekki henta alls staðar og þyrfti að útfæra á réttan hátt.“
Rafmagnsvespur falla undir sömu skilgreiningu og reiðhjól og hafa náð talsverðri útbreiðslu á undanförnum árum, einkum meðal ungmenna og munu vera býsna vinsælar fermingargjafir. Vespurnar komast upp í 25 km hraða og samkvæmt umferðarlögum má ekki aka þeim á akbraut, en heimilt er að vera á þeim á gangstétt, gangbraut og á hjólreiðastígum og víkja á fyrir gangandi vegfarendum.
Í sömu lögum er kveðið á um að bannað sé að reiða á vespunum, nauðsynlegt sé að nota hjálm og viðbótarhlífðarbúnaður sé æskilegur. Þrátt fyrir það er algengt að sjá að minnsta kosti tvö hjálmlaus ungmenni á hverju hjóli. Í leiðbeiningum Umferðarstofu er mælst til þess að börn yngri en 13 ára séu ekki á slíkum hjólum, en engum er skylt að fara eftir þeim leiðbeiningum og dæmi eru um að börn allt niður í tíu ára eigi rafmagnsvespur.
Samkvæmt núgildandi umferðarlögum er engra ökuréttinda krafist fyrir rafmagnsvespur, en í frumvarpi um ný umferðarlög var lagt til að því verði breytt. Frumvarpið var ekki afgreitt á nýafstöðnu þingi og óvíst um framhald þess.
„Auðvitað er gott að fólk sé að hreyfa sig meira og nota þessa stíga. Það hefur orðið mikil aukning í samgönguhjólreiðum, en ég held að það sé pláss fyrir alla þessa umferð ef allir temja sér tillitssemi,“ segir Þóra Magnea Magnúsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Umferðarstofu spurð að því hvort gangstígarnir séu að verða yfirfullir.
„En það þarf að árétta að gangandi vegfarendur eiga forgang og það er mjög góð regla að nota hægri regluna á blönduðum stígum; þ.e. að ganga eða hjóla hægra megin og taka fram úr vinstra megin. Svo ætti hjólreiðafólk ekkert að vera feimið við að nota bjölluna til að láta vita af sér, það er ekkert frekt við það,“ segir Þóra.
Hún segir að Umferðarstofu berist nokkuð af kvörtunum varðandi umferð á göngustígum og þær séu af ýmsum toga. „Við fáum kvartanir vegna hjólreiðafólks sem fer of hratt. Svo er nokkuð kvartað yfir rafmagnshjólunum sem fara nokkuð hratt og algjörlega hljóðlaust.“
Sum reiðhjól eru þannig út garði gerð að ná má allt að 50 km hraða á þeim. Er hámarkshraði á göngustígum? „Nei, það er enginn hámarkshraði þar. Við fáum einmitt nokkuð af ábendingum og umkvörtunum vegna þessa.“
„Okkur ber að líta til þess að það er undanþága að leyfa hjólandi að vera á gangstígum hér á landi. Þetta er undantekning sem þekkist vart annars staðar, enda er litið svo á víða erlendis að öruggara sé að hjólandi séu á akbrautum eða þar til gerðum hjólreiðastígum. Hér hefur skort á að samgöngumannvirki séu hönnuð með tilliti til hjólandi en á undanförnum árum hefur orðið breyting á til betri vegar. Við hjá Umferðarstofu vonum að þessi undanþága sem nú er í gildi sé tímabundin en þangað til verðum við að sýna hvert öðru tillitssemi,“ segir Þóra.
Í vor er að vænta fræðslumynda um hjólreiðar frá Umferðarstofu og verða þær sýndar í sjónvarpi og á vef Umferðarstofu.