Ramsarsamningurinn hefur samþykkt þrjú ný svæði á Íslandi inn á alþjóðlega votlendisskrá sína. Um er að ræða Eyjabakkasvæðið, friðlandið í Guðlaugstungum og verndarsvæði blesgæsa í Andakíl við Hvanneyri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.
Eyjabakkar er votlendissvæði milli Snæfells og Eyjabakka, um 265 ferkílómetrar að stærð og nær ofan af jökli og niður undir Hafursfell og Laugafell. Þar hafa fleiri en 30 tegundir fugla fundist. Svæðið er alþjólega mikilvægt fyrir fugla, einkum vegna þess mikla fjölda gæsa sem fellir þar flugfjaðrir og nýtir svæðið sem beitarsvæði á þessum viðkvæma og mikilvæga tíma fyrir fuglana. Svæðið er einkar fjölbreytt, með mýrum, flóum, tjörnum, vötnum, lækjum og ám. Það er friðlýst sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og verður áfram undir stjórn þjóðgarðsins.
Guðlaugstungur eru norðan Hofsjökuls, gegnt Þjórsárverum í suðri. Um er að ræða um 400 ferkílómetra vorlendissvæði sem er alþjóðlega mikilvægt, einkum fyrir þann fjölda gæsa sem verpir á svæðinu og nýtir það jafnframt sem fæðusvæði. Guðlaugstungur voru friðlýstar árið 2005 en svæðið hýsir allt að 13.000 varppör gæsa á ári og þjónar sem fæðusvæði fyrir þær og þá unga sem þar komast upp árlega. Votlendi þekur um helming svæðisins, sem skiptist í heiðalönd, votlendi, mólendi og bersvæði, ár og vötn.
Verndun búsvæða fugla í Andakíl við Hvanneyri var staðfest 2002 þegar Hvanneyrarjörðin var friðlýst í heild. Svæðið var stækkað verulega árið 2011 og nær nú yfir stærstan hluta votlendis í Andakíl. Á svæðinu er fjölbreytileiki votlendis mikill og fjölmargar tegundir fugla nýta sér svæðið. Það er í farleið fugla s.s. blesgæsar og fleiri tegunda sem hafa viðdvöl á leið sinni til og frá varpstöðvum. Talið er að um 10% grænlenska blesgæsastofnsins hafi viðdvöl á verndarsvæðinu vor og haust. Svæðið er einn af mikilvægustu viðkomustöðum blesgæsa hér á landi.
Önnur Ramsarsvæði hér á landi eru Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörður.
Er það mat Ramsarsamningsins að þessi svæði séu alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði sem eigi heima á skrá samningsins.