Füle: ESB tekur tillit til séríslenskra aðstæðna

Stefan Füle ásamt Össuri Skarphéðinssyni í Brussel í dag.
Stefan Füle ásamt Össuri Skarphéðinssyni í Brussel í dag.

Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, kveðst hafa fullan skilning á sérstöðu Íslands um bann við innflutningi á lifandi dýrum og sagði að fullur vilji væri til að taka tillit til hinna sérstöku aðstæðna sem ríktu á Íslandi um dýra- og plöntuheilbrigði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fundaði með Füle í Brussel í morgun.

Fram kemur í tilkynningunni, að á fundinum hafi stækkunarstjórinn lýst yfir að ESB væri nú reiðubúið að hefja viðræður við Íslendinga um kaflann um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði á grundvelli samningsafstöðu Íslendinga. Hann sagði að Íslendingum hefði tekist vel að koma sérstöðu sinni á framfæri.

Þá segir, að íslensk stjórnvöld hafi sent Evrópusambandinu samningsafstöðu sína fyrir jól. Þar séu settar fram skýrar kröfur um að Íslendingar myndu viðhalda banni á innflutningi á lifandi dýrum. Mögulegt verði að opna kaflann á næstu ríkjaráðstefnu sem gert er ráð fyrir í júní.

ESB reiðubúið að koma þjónustumiðstöð á fót með Íslendingum

Málefni norðurslóða voru einnig til umræðu á fundinum, í framhaldi af fyrri viðræðum um samstarf Íslands og Evrópusambandsins á því sviði. Fram kemur, að Össur hafi lagt áherslu á að komið yrði á fót samstarfi milli Íslands og Evrópusambandsins um sérstaka þjónustumiðstöð vegna aukinna umsvifa og siglinga á norðurhöfum. Stefan Füle sagði Evrópusambandið reiðubúið að starfa með Íslendingum að því að koma slíkri miðstöð á fót.

Össur og Stefan Fule ræddu einnig samvinnu Íslands og Evrópusambandsins í framtíðinni á sviði mengunarvarna, ekki síst með tilliti til olíusvæða sem gert er ráð fyrir að verði starfrækt norðan Íslands í framtíðinni. Ákveðið var að hefja formlegt samráð milli Íslendinga og Evrópusambandsins undir heitinu “Arctic Dialogue” og verður fyrsti fundur háttsettra embættismanna í Brussel þegar í næstu viku.

Þá kemur fram, að Össur hafi rætt ganginn í viðræðunum sem hafi verið góður. 27 kaflar hafi verið opnaðir og 11 lokað. Einungis sé eftir að hefja viðræður um sex kafla.

Utanríkisráðherra mun eiga fleiri fundi með framkvæmdastjórum Evrópusambandsins í heimsókn sinni til Brussel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert