Fjallamaðurinn Leifur Örn Svavarsson er lagður af stað í leiðangur sinn á Mt. Everest, hann mun ganga Norðurleiðina á fjallið sem er fáfarnari og erfiðari. Mbl.is heilsaði upp á Leif Örn þegar hann var að pakka niður fyrir ferðalagið en á meðal þess sem hann tók með sér var stinningarlyfið viagra.
Lyfið tekur hann þó með sér til að takast á við háfjallaveiki komi til þess og á að hjálpa honum að koma niður fjallið sem er nokkuð ólíkt venjulegu hlutverki lyfsins. Leifur Örn sem er einn reyndasti fjallaleiðsögumaður landsins stefnir á að ná toppi fjallsins í lok maí en hægt er að fylgjast með göngunni hér.
Í upphafi var talið að Norðurleiðin væri vænlegri til að ná á tind Mt. Everest og á þriðja áratug síðustu aldar fóru nokkrir breskir leiðangrar þá leið. Líklega enginn frægari en leiðangur George Mallory sem fórst á fjallinu í júnímánuði árið 1924. Toppnum var þó ekki náð fyrr en árið 1953 þegar Sir Edmund Hillariy náði á tindinn ásamt sherpanum Tenzing Norgay í maí.