„Þarna voru nöfn fólks sem ég taldi vera vini mína“

Guðný Jóna Kristjánsdóttir
Guðný Jóna Kristjánsdóttir

„Það voru nöfn á þessum lista sem ég taldi vera vini mína og sem foreldrar mínir töldu vera vini sína,“ segir Guðný Jóna Kristjánsdóttir læknir um undirskriftalista sem birtur var opinberlega til stuðnings manni sem nauðgaði henni á Húsavík vorið 1999.

Kastljós fjallaði um þetta mál í dag og ræddi við Guðnýju um nauðgunina og það sem gerðist í kjölfar hennar.

Héraðsdómur Norðurlands eystra sakfelldi manninn fyrir nauðgun og Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu. Maðurinn, sem var dæmdur, játaði brot sitt upphaflega en dró síðan þá játningu til baka í meginatriðum.

„Það er erfitt að þurfa að takast á við ofbeldi eins og nauðgun en eiginlega verra að upplifa það að fólk haldi með nauðgaranum eða trúi manni ekki,“ sagði Guðný í samtali við Kastljós.

Guðný sagði að fljótlega eftir að þetta mál kom upp hefðu farið af stað kjaftasögur. Þetta leiddi til þess að hún flutti frá Húsavík.

Eftir dóminn fór af stað undirskriftasöfnun þar sem 113 Húsvíkingar lýstu yfir stuðningi við manninn sem nauðgaði Guðnýju, en þeir sem skrifuðu undir listann töldu dóminn vera rangan. Þessi listi var birtur opinberlega árið 2000 í bæjarblaði á Húsavík. Í Kastljósi kom fram að álíka herferð sé óþekkt á Íslandi. Hvorki fyrr né síðar hafi þolandi í kynferðisbrotamáli mætt viðlíka skipulagðri og opinberri fordæmingu og þarna. 

Presturinn taldi betra að hætta við

Guðný var spurð í viðtalinu hvort einhver hefði þrýst á hana um að kæra ekki nauðgunina. Hún sagði að Sighvatur Karlsson, prestur á Húsavík hefði „ýjað“ að því við sig hvort „það væri ekki betra að hætta bara við þetta“.

Þegar DV fjallaði um þetta mál á sínum tíma gagnrýndi séra Sighvatur birtingu listans og sagðist hafa reynt að koma í veg fyrir opinbera birtingu hans. Hann lét jafnframt hafa eftir sér að hann teldi ekki fullreynt að leita sátta í málinu með aðstoð sálfræðings. Á þessum tíma lá fyrir dómur í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert