Verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings og eins sakborninga í Al Thani-málinu, hefur kært til ríkissaksóknara símahlustun sem starfsmenn hjá embætti sérstaks saksóknara framkvæmdu, en hlustað var á síma Hreiðars Más árið 2010. Er aðgerðin sögð vera ólögmæt.
Þetta kemur fram gögnum sem lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, sem eru verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, birtu í dag. Sigurður og Ólafur eru einnig sakborningar í Al Thani-málinu.
Í bréfi sem Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más, sendi Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara í síðasta mánuði kemur fram að það liggi fyrir að símahlustun hafi verið beitt gegn Hreiðari Má við rannsókn mála sem lúta að starfsemi Kaupþings banka. Um sé að ræða tímabilið mars fram í maí 2010. Hörður segir að við yfirferð þeirra símtala sem hlustuð voru og varðveitt séu hjá sérstökum saksóknara hafi komið í ljós að samtöl Hreiðars Más við Hörð hafi verið hleruð og vistuð hjá embættinu.
Í bréfinu til ríkissaksóknara er því haldið fram að brotið hafi verið gegn réttindum Hreiðars Más sem varin séu með ákvæðum sakamálalaga, ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrár.
„Skjólstæðingur minn telur ljóst að hlustun sérstaks saksóknara á samtölum hans við verjanda er ólögmæt og verður a.m.k. að virða starfsmönnum embættisins það til stórkostlegs gáleysis,“ segir í bréfinu.
„Til að taka af öll tvímæli þá er með erindi þessu lögð fram kæra á hendur starfsmönnum embættis sérstaks saksóknara til refsingar vegna framkvæmdar símahlustunar gagnvart skjólstæðingi mínum,“ segir ennfremur í bréfinu. Þar kemur einnig fram að ekki sé vitað hvaða starfsmenn embættisins eigi þarna hlut að máli.
Þá bendir Hörður á að Hreiðar Már hafi fyrst verið upplýstur um símahlustunina 28. desember 2011, eða 19 mánuðum eftir að aðgerðunum lauk.