Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að það hafi legið fyrir frá því um miðjan desember að aðalmeðferð í Al Thani málinu ætti að hefjast 11. apríl. Búið sé að kalla um 50 vitni til að mæta fyrir dóminn og það sé mikið mál að fara að breyta um dagsetningu í svo stóru og viðamiklum máli.
Ragnar Hall og Gestur Jónsson, verjendur Sigurðar Einarssonar og Ragnars Hall. óskuðu í dag eftir að þeir yrðu leystir frá störfum sem verjendur í Al Thani málinu, þar sem þeir treystu sér ekki til að undirbúa málsvörn sakborninga sinna eins og nauðsynlegt væri. Þeir taka fram í yfirlýsingunni, að þeir séu sannfærðir um sakleysi Sigurðar og Ólafs.
Pétur Guðgeirsson, dómari í Al Thani málinu, hafnaði í dag þessari beiðni. Hann vísar m.a. í bréfi til Ragnars og Gests í lögmannalögin. Í 20 gr. lagananna segir að „lögmanni [sé] skylt að taka við skipun [eða tilnefningu] sem verjandi eða réttargæslumaður í [sakamáli]“. Hann bendir einnig á ákvæði sakamálalaga þar sem segir að óski „sakborningur eftir því að skipun eða tilnefning verjanda verði afturkölluð og nýr verjandi skipaður eða tilnefndur og skal þá verða við slíkri ósk nema hætta sé á að málið tefjist af þeim sökum.“
Ljóst er að ef dómari hefði fallist á beiðnina og síðan skipað nýja verjendur hefði orðið að fresta aðalmeðferð Al Thani málsins. Gefa hefði orðið nýjum verjendum tækifæri til að kynna sér gögn málsins, en þau eru upp á um 9.000 blaðsíður. Gestur Jónasson sagði á blaðamannafundi í dag, að gögnin væru gríðarleg að vöxtum. Þau jafngiltu því að hann þyrfti að lesa um 30 jólabækur.
Ástæðan fyrir því að verjendur sakborninga í Al Thani málinu vildu fresta aðalmeðferðinni er sú að saksóknari hefur lagt fram ný gögn í málinu sem þeir segjast þurfa tíma til að kynna sér.
„Það er gjarnan að gögn bætast við í sakamálum á meðan málin eru fyrir dómi, fram að aðalmeðferð. Gögnin er ekki að því umfangi að þeim eigi ekki að auðnast að komast yfir þetta,“ sagði Ólafur Þór í samtali við mbl.is.
Gestur og Ragnar sögðu á blaðamannafundi í dag að Hæstiréttur hefði í síðustu viku ekki virt sólarhringsfrest sem verjendur og saksóknari hefðu til að skila greinargerðum til Hæstaréttar, en í kæru verjenda var krafist þess að aðalmeðferð í Al Thani málinu yrði frestað um 6-8 vikur.
Gestur segir að kærendur hafi fengið staðfestingu frá Hæstarétti 4. apríl kl. 10:40 að kærugögn hefðu verið send Hæstarétti þann sama dag kl. 10:25. Hann segir að sólarhringfrestun hefði átt að miðast við þá tímasetningu. Gestur segir að skömmu eftir hádegi þennan sama dag (4. apríl) hafi verið hringt frá Hæstarétti og verjendum tilkynnt að dómar lægju fyrir í kærumálinu.
Ólafur Þór gerir athugasemdir við þessa frásögn. „Allir aðilar fengu tilkynningu frá Héraðsdómi Reykjavíkur 2. apríl kl. 16:35, að gögnin yrðu send til Hæstaréttar daginn eftir, þann 3. apríl. Þetta er sent á Gest, Hörð Felix, Ragnar Hall, Karl Axelsson [verjendur í Al Thani málinu] og okkur. Þeir sögðu frá því á blaðamannafundinum að þau hefðu fengið tölvupóst frá Hæstarétti 4. apríl en láta þess í engu getið að þeir voru búnir að fá tölvupóst um þetta tveimur dögum fyrr,“ segir Ólafur Þór.
Þess má geta að þrír starfsmenn embættis sérstaks saksóknara mættu á blaðamannafundinn í dag og fylgdust með því sem þar kom fram. Starfsmennirnir tóku fram í samtali við mbl.is, að þeir hefðu ekki unnið að Al Thani málinu.
Það kallar á mikla vinnu og skipulagningu að ákveða aðalmeðferð í svona stóru máli. Héraðsdómur er búinn að taka frá um tæplega tvær vikur af tíma sínum í þetta mál. Búið er að biðja um 50 vitni að mæta fyrir dóminn. Augljóst er að ef dómari hefði fallist á beiðni Ragnars og Gests og að segja sig frá málinu hefði hann orðið að fresta aðalmeðferðinni til að gefa nýjum verjendum kost á að kynna sér málið. Þá hefði aðalmeðferðin frestast um marga mánuði og hefði tæplega hafist fyrr en eftir sumarleyfi.